Blaðaútgáfa í fjötrum

Yfirleitt hef ég hvern dag með því að lesa Morgunblaðið og Fréttablaðið. Pappírsútgáfu þeirra. Þvínæst opna ég tölvuna og les netblöðin. Það er urmull af þeim. Mér virðist þau öll með sama merki brennd. Þau tala þjóðarsálina niður.

Við lestur á bók Gylfa Gröndal, Fólk í fjötrum, um stofnun Alþýðublaðsins gamla og upphaf verkalýðsbaráttunnar á Íslandi fyrir hundrað árum, segir af fólki sem stillti sér upp með alþýðufólki, sem haldið var í fjötrum fátæktar og þrælahalds, og talaði í það von og kjark. Og ekki veitti af.

Ég kem ekki auga á að blöðin nú til dags, hundrað árum seinna, hvort sem þau eru á pappír eða neti, stilli sér upp með þeim hluta þjóðarinnar sem er í verstu fjötrunum í dag, og reyni að tala í hana von og kjark. Kannski kunna blaðamenn nútímans ekki tungumálið sem til þess þarf.

Undanfarnar vikur hef ég skrifað nokkra pistla um leit mína að stjórnmálamönnum sem tækju mið af þörfum þeirra sem verst eru settir í þjóðfélaginu. Hef ég látið þá skoðun í ljós að ég saknaði gamla Alþýðuflokksins. Þá fékk ég ákúrur fyrir að standa með Baugsdindlum.

Í annað skipti rifjaði ég upp að Alþýðublaðið fyrir miðja síðustu öld hefði verið rödd alþýðu og verkalýðs, blað foreldra minna og ömmu Hreiðarsínu Hreiðarsdóttur og afa Ólafs Þorleifssonar. Þá sendi kunningi minn á Suðurlandi mér tengil á þennan pistil Egils Helgasonar um netblaðið Herðubreið. Öllu skal ýtt á kaf.

Herðubreið telst vera málgagn Samfylkingarinnar. Ég hef nákvæmlega engan áhuga á blaðinu. Þar er ekkert sem höfðar til mín. Þannig er með fleiri netblöð. Það er ekki illgirni sem vantar.

Þessi kunningi minn á Suðurlandi hafði ekki fyrir því að benda mér á neitt jákvætt. Kannski finnst honum hvergi vera neitt slíkt í tilverunni. Hann gerði að minnsta kosti ekki tilraun til að tala í mig von og kjark. Eins og ég þarf þeirra með.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.