Unun, andstreymi, Mogginn og fleira

Fórum í sveitina okkar á föstudag. Út í vorið, eins og sönghópurinn kallar sig. Á móti okkur tók blessuð blíða. Þannig orðar eldra fólk það. Logn, úrkomulaust, hiti + 10°C. Við fögnuðum og önduðum djúpt. Laugardagurinn enn ljúflegri. Framan af. Unun.

Síðdegis á laugardag snérist vindáttin í SSV. Þá tók að snjóa. Snjóaði alla nóttina. Bætti í vind og snjóaði meira. Í morgun var krap á vegum. Það var þeirrar tegundar sem reynir að taka af manni stýrið og lætur bílinn rása. Nutum sextíu ára reynslu af akstri við íslensk skilyrði. Andstreymi.

Hafnarfjall um hádegi
Hafnarfjall um hádegi

Stönsuðum undir Hafnarfjalli. Sérkennileg munstur í fjallinu. Tókum mynd. Horfðum í gegnum linsuna yfir fjörðinn til Borgarness. Langþreytt, vindbarin, hrísla í forgrunn. Fegurð er margra gerða. Það var lítil umferð. Töldum hringtorgin sem ekið er um frá Leirvogstungumelum og heim í Kópavog.. Þau reynast vera sautján. Andstreymi.

Hríslan og fjörðurinn
Hríslan og fjörðurinn

Sáum í Mogganum, sötrandi heitt kaffi, að báðir kvenpennarnir, Agnes og Kolbrún, eru pirraðar út í Jóhönnu Sigurðardóttur krata. Kannski er það persónulegt. Kannski ritstjórnarstefna. Ég dreg þá ályktun að Mogganum sýnist Jóhanna óþarflega vinsæl í pólitíkinni. Nauðsynlegt sé að sussa pínulítið á traustið sem hún nýtur. Mogginn.

Undir Hafnarfjalli
Undir Hafnarfjalli

Sjálfur er ég að mestu sáttur við Jóhönnu. Það er auðvitað fullt af smábátum í liði hennar. Litlum duggum sem hnýttar eru aftaní hana. Varla þó fleiri en í öðrum flokkum. Mér er alltaf hlýtt til Alþýðuflokksnafnsins. Síðan fyrir miðja síðustu öld. Og Viðreisnarstjórnarinnar. Hafði alltaf svolitla andúð á Kvennalistann og tókst aldrei að skilja Jón Baldvin. Efast um að hann geri það sjálfur.

Og nú er bannað að lesa úr bókum Hannesar Hólmssteins á Háskólatorgi. Þetta eru skrítnir tímar. Steingrímur J. stóð sig þokkalega í Silfrinu. Þá stendur Ragnar Aðalsteinsson alltaf öðruvísi að veröld lögfræðinnar en almennt tíðkast. hann virkar á mig eins og klettur í löðrinu.

Færeyingar sigruðu Íslendinga í fótbolta Kórahöllinni 2-1. Ravuliga gott.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.