Frambjóðendur og hagsmunatengsl

Í febrúar birti dagblað svör nokkurra frambjóðenda um fjárhagsstöðu þeirra. Eignir, skuldir og hagsmunatengsl. Það sem kom á óvart í þeirri könnun var hvað margir neituðu að svara. Alltaf dettur manni í hug að sá sem ekki vill svara slíkum sjálfsögðum spurningum hafi eitthvað að fela. En hafi frambjóðandi eitthvað að fela þá á ekki að kjósa hann.

Mér fyndist eðlilegt að fjölmiðlar legðu sig fram um að fá þessar upplýsingar hjá frambjóðendum allra flokka fyrir prófkosningar. Þá gætu kjósendur sniðgengið þá sem ekki vilja upplýsa um stöðu sína og hagsmunatengsl. Hálfkveðnar vísur hafa verið á kreiki um undarlegar fyrirgreiðslur til einhverra þingmanna og viðskiptajöfra síðustu misseri.

Ef slíkir ná kjöri má fastlega reikna með því að þeir bindist hagsmunaböndum um að verja einkahagsmuni sína og það auðvitað á kostnað almennings. Af sárri reynslu ættu þannig stjórnmál að heyra sögunni til. Það væri vel til fundið hjá fjölmiðlum að leggjast í rannsóknarvinnu um þessi atriði og birta niðurstöðurnar Það gæti auðveldað venjulegu fólki valið.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.