Orðræðan er í eðli sínu um vald

Orðræðan er í eðli sínu um vald. Hún er ekki um hag fólksins sem þjáist. Tugþúsundir manna. Hún er um vald. Þingmenn og fyrrum ráðherrar koma ábúðarmiklir í pontu Alþingis, draga andann djúpt og leggja sig fram um að gera þá sem nú stjórna ótrúverðuglega. Það eitt virðist skipta þá höfuðmáli. Að gera stjórnina ótrúverðuglega.

Orðræðan er í eðli sínu um vald. Það er magnað að fylgjast með þessu. Sömu mennirnir og segjast bera hag „fólksins í landinu“ fyrir brjósti verða berir að því að hafa miklu meiri áhuga á að koma ríkisstjórninni í vanda og þá væntanlega til þess að gera sinn hlut betri. Án efa með kosningar í huga, enda stutt í þær. Allt í lagi að láta „fólkinu í landinu“ blæða. Allt fyrir valdið.

Orðræðan er í eðli sínu um vald. Við erum vitni að því að mörgu fólki er að blæða út. Það er kramið og örvæntingarfullt. Samt er orðaskakið helgað valdabaráttu. Þannig hefur það verið síðan um mánaðamót september og október á liðnu ári. Febrúar er fimmti mánuðurinn sem fátt sem ekkert hefur verið gert til að stöðva blæðinguna. En mikið talað.

Orðræðan er í eðli sínu um vald. Og ef hún breytist ekki þá á „fólkinu í landinu“ eftir að blæða í þrjá mánuði til viðbótar. Mér finnst að þingheimur „hæstvirtur og háttvirtur“ eigi að taka sig saman og stöðva blæðinguna. Það gerist ekki nema menn láti af þessu endalausa kjaftæði og blási froðunni af orðræðunni.

Svo kemur að kosningum. Þá verður litið til þeirra sem reyndust fólkinu best. Ekki þruglaranna.

2 svör við “Orðræðan er í eðli sínu um vald”

  1. „Þá verður litið til þeirra sem reyndust fólkinu best.“ ?
    Ætla ekki yfir 30% að kjósa þá sem reyndust fólkinu verst?

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.