Enn er fólki slátrað

Aftur og aftur hefur verið fullyrt af óskhyggjumönnum að með aukinni siðvæðingu þjóða, þekkingu og framþróun, muni styrjöldum þar sem óbreyttum borgurum er slátrað, fækka. Hugsun og aðferðir stjórnmálamanna til samninga muni færast á þroskaðra stig og mannslífum ekki verða fórnað í ferli samninga. Þetta hefur ekki ræst.

Staðreyndin er sú að það hefur svo til aldrei, í veröldinni víðri, orðið hlé á styrjöldum og slátrun á óbreyttum borgurum síðustu hundrað ár, svo nefnt sé tímabil þar sem framför í hugsun og tækni hefur orðið hvað hröðust í samfélagi manna. Því miður. Slátrun á fólki er aldrei réttlætanleg.

Óhugnanlegar fregnir berast af slátrum Ísraela á íbúum Gasa. Það er erfitt að taka afstöðu með öðrum stríðsaðilanum. Geri maður það þarf að samþykkja dráp á fólki. Hver vill verða til þess? Ljóst er að báðir eiga sök því báðir meta mannslíf, annarra en sinnar eigin þjóðar, lítils. Hagsmuni annarra en sinnar eigin þjóðar lítils.

Afstaða sem tekin er á að vera með lífinu. Fólkinu, almenningi, börnum, konum og körlum. Fólkinu sem glímir við að lifa sitt daglega brauð. Öfgarnar og ofstækið sem knýr stríðsaðilana er eitur í beinum.

Stríðsherrarnir segjast berjast fyrir þjóðir sínar og þegna en manni sýnist virðing þeirra fyrir lífi vera einhversstaðar langt, langt á eftir ásælninni í persónulega hagsmuni, vald og aðstöðu.

Í flestum þjóðum virðast stjórnmálamenn vera svo ástfangnir af valdi að þeir láta störf sín mótast af þeirri ást, þótt á vörum þeirra séu orð um annað. Því fer sem fer.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.