Stjórnarandstaðan segi einnig af sér

Á unglingsárum mínum fórum við bræðurnir dag eftir dag niður að höfn á morgnana til að snapa vinnu. Það gerðu einnig hundruð aðrir og fjölskyldumenn á ýmsum aldri. Oft var enga vinnu að fá vikum saman. Þegar fragtskip komu með farm utanúr heimi elti atvinnulaus hópurinn Jón Rögnvaldsson verkstjóra hjá Eimskip í þeirri von að finna náð í augum hans.

Jón valdi menn af einhverju handahófi, sýndist okkur, lítill hluti fékk vinnu. Vonbrigðin leyndu sér ekki hjá hinum. Það sást þegar axlirnar á þeim sigu. Fjölskyldumenn áttu bágast. Þegar við bræðurnir vorum svo heppnir að vera valdir glaðnaði mjög í sálum okkar og knúðir af lífshamingju unnum við á við tvo menn hvor.

Síðan þetta var hafa mörg skeið atvinnuleysis dunið yfir. Margur persónuleikinn hrunið og fjölskyldur leyst upp. Eiginkonur og börn farið í eina áttina, karlarnir í aðra og margir týnt sjálfum sér. Úrræðalausir, örvæntingarfullir og skelfingu lostnir. Nú er samskonar ótíð að koma yfir þjóðina.

Þeir sem fara með völd og flytja ræður um að almenningur verði að þjappa sér saman eru gjarnan fólk með fasta atvinnu og trygga aðstöðu og þreföld og upp í áttföld verkamannalaun. Ekkert sem haggar afkomu þess og lífsramma. Og stóri gallinn við ráðamenn dagsins í dag er að þeir tala og virka eins og þeir eigi sjoppuna, þjóðina og kerfið og við hin séum einskonar niðursetningar og byrði á þeim.

Fólkið sem skilið er útundan
Fólkið sem skilið er útundan

Ég fór á fund niður á Ingólfstorg í gær. Blandaði mér saman við aðra eldri borgara, öryrkja, fatlaða og sjúka. Áætlað er að um 600 manns hafi mætt þarna. Meginþorri þess var fólk sem aldrei fékk hlutdeild í „velferðarskeiði“ síðustu ára. Þá einnig fólk sem skilið var útundan þegar tekjur ríkisins voru meiri en nokkru sinni áður hjá þjóðinni. Skilið útundan.

Nú óttast þessir hópar að kjör þeirra, sem nógu kröpp eru fyrir, verði skert. Enda koma þeir engum vörnum við. Eru algerlega upp á náð stjórnvalda komnir líkt og verkamennirnir á Eyrinni fyrir sextíu árum sem mændu á verkstjórana með sjáanlegan kvíða í augunum. Maður hefur á tilfinningunni að þessir hópar eigi aðeins einn málsvara á Alþingi, Jóhönnu Sigurðardóttur.

Enda kom fram tillaga um það í Háskólabíói í gærkvöldi að stjórnarandstaðan ætti einnig að segja af sér.

Eitt andsvar við „Stjórnarandstaðan segi einnig af sér“

  1. Hvernig getum við reiknað með að forustumenn verkalýðsfélaga og lífeyrisjóða sem eru margir hverjir með margföld verkamannalaun auk allskonar nefndarlauna og aðrar sporslur vinni fyrir almenning. Burt með þá alla og og kjósa allt upp á nýtt. Tek undir hjá þér með Jóhönnu Sigurðardóttir hún virðist vera sjálfri sér samkvæm og eflaust mætti nota einhverja úr ríkisbákninu áfram og ekkert nema gott um það að segja. Kveðja.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.