Röddin í eyðimörkinni – Jóhanna Sigurðardóttir

Hvernig sem á því stendur þá er rödd Jóhönnu Sigurðardóttur, félagsmálaráðherra, eina röddin í eyðimörkinni sem nær til almennings. Maður hefur á tilfinningunni að hún sé eina manneskjan sem meinar það sem hún segir.

Hugmyndir hennar og samstarfsmanna hennar í ráðuneytinu hljóma vel og kveikja vonir hjá þeim fjölda fólks sem um þessar mundir skipast í þann hóp sem fellur undir orðalagið „þeir sem minna mega sín“. Jóhanna lætur þó fylgja að til þess að björgunaráætlanir hennar nái fram þurfi ríkisstjórnin að ná samkomulagi um þær.

Hagfræðingarnir Gylfi Zoëga og Jón Daníelsson lögðu til að byrjað yrði á því að móta aðgerðapakka sem miðaði að því að bjarga heimilum og fyrir tækjum. Og öllum jafnt. Manni sýnist að það gæti orðið erfitt fyrir ráðherra Sjálfstæðisflokksins að samþykkja slíka tillögu þar sem þeir hafa gjarnan þurft að gæta „sinna manna“ eins og sagt er.

En greinilegt er að ekki eru öll kurl komin til grafar enn um ástæður þess að Ísland er komið svo djúpt í skítinn sem raunin er. Ekki er heldur útséð hvað skíturinn er djúpur né hvað afglöp ólánsmannanna sem haft hafa tögl og hagldir þjóðarinnar í höndum sér liðin misseri, sökkva okkur djúpt.

Þegar ég las um kvíða fyrirliða eldri borgara og öryrkja um að hagur þeirra og afkoma væru líkleg til að versna, minnugur þess hvað þessir hópar tveir voru skildir útundan góðu árin, þá ákvað ég að bregða við eins og strúturinn við sandinn, og spurði frú Ástu hvort það væri ekki í lagi að hefja jólahreingerningu í eldhússkápunum.

Morguninn hefur því verið helgaður eldhússkápum, tuskum og hreinsiefnum. Og það má auðvitað endurtaka í hverju kvíðakasti

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.