Tolstoy – dýrmæt gjöf

Allar smásögur Tolstoys. Fólk reiknar ekki með afmælisgjöfum á mínum aldri. Finnur gleði í símtölum dagsins, sms skeytum, tölvupósti og athugasemdum á bloggsíðu. Þeir sem búa yfir meira örlæti koma og kyssa á kinn og færa litla gjöf. Makinn á auðvitað alltaf sterkasta leikinn á slíkum tímamótum. Svo gleymist dagurinn.

Vikum síðar mætir í afakjúklingaveislu tíu manna armur afkomenda, þar á meðal kvenguðfræðingurinn, og færir karli föður sínum síðbúna gjöf. Bók. Og það ekki neitt venjulegt hismi heldur Allar smásögur Tolstoys. Það urðu miklir fagnaðarfundir.

Leo Tolstoy komst í uppáhald fyrir fimmtíu árum. Þá eignaðist ég Önnu Kareninu. Hún hefst með þessum orðum: „Allar hamingjusamar fjölskyldur eru hver annarri líkar, en óhamingjusöm fjölskylda er jafnan ógæfusöm á sinn sérstaka hátt.“

Í framhaldi kom svo Stríð og friður og löngu síðar Kreutzer-sónatan. Allar þessar keyptar í fornbókabúðum. En óvænt var bókagjöf frá góðum vini, organleikara fyrir austan fjall, þegar hann kom heim frá útlöndum fyrir liðlega fjörutíu árum og gaf mér bókina Great Short Stories of the World.

Bókin sú er hafsjór bókmennta. Hún innheldur 178 smásögur frá 30 löndum. Ein sagan í bókinni og sú sem ég fyrst las, er einmitt eftir Tolstoy og heitir The Long Exile. Í íslensku bókinni Allar smásögur Tolstoys er hún fyrsta sagan og heitir þar „Guð sér hið sanna, en bíður.“

Það er af mikilli ánægju yfir góðri bók sem ég nefni þetta. Þið vitið hvernig það er, stundum getur maður ekki orða bundist af þakklæti. Og gleði. Svo er nú það.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.