September rigningar – tár himinsins

Mér datt í hug að kveðja septembermánuð með virktum. Þrátt fyrir miklar rigningar. Gerði tilraun í fyrri viku til að setja fallegt lag inn á heimasíðuna, lag þar sem sungið er um September in the Rain, en hún neitaði að taka við því. Það er svo margt sem fer öðruvísi en fólk vonar, þessa dagana.

Kunningi minn, eldri borgari eins og ég, seldi fyrirtækið sitt fyrr á árinu og lagði tíu milljónir inn á einhverskonar reikning í Glitni. Þá leit allt svo vel út og hann hlakkaði til að njóta vaxtanna. Í morgun komst hann að því að sjóðurinn var kominn niður í tvær milljónir. Það kæmi mér ekki á óvart að hjartað í honum færi í stopp.

Ég er aftur á móti miklu heppnari. Þegar djöfulæðið hófst og hlandfroða fjárfestingarsérfræðinganna „Svartklædda sléttgreidda fólksins“, eins og Sigurður Hreiðar lýsir svo ágætlega hér, tók að hjaðna, þá átti ég eitthundraðþrjátíuogsex krónur í vinstri jakkavasa mínum. Þetta er köflóttur jakki og krónurnar eru þar enn. Óskertar. Og þótt þær dugi ekki fyrir einum lítra af bensíni þá get ég glaðst yfir því að þær voru ekki í banka.

Þessi mynd er af hjólbörunum í Litlatré. Ég tók hana um liðna helgi. Það er mikið vatn í þeim. Regnvatn síðustu tveggja vikna. Tár himinsins kalla ég hana eða: Hjólbörur fullar af tárum.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.