Vinátta skerpir

Sólin vakti mig í morgun. Hún kom inn um gluggann á milli gardína. Það var vinalegt. Dagurinn byrjaði því vel þótt betri helmingurinn sé uppi í Borgarfirði, í systrasamveru í Kalmanstungu. Heimkoma hans er tilhlökkunarefni.

Galli við sunnudagsmorgna er gjarnan sá að hafa lesið Moggann kvöldið áður. Það gerist frekar í einveru. En svo, eftir fyrstu nauðþurftir, kaffi og þessháttar, opnar maður tölvuna. Leitar frétta á mbl.is, vísir.is og skessuhorn.is, og lítur því næst á fólkið í Eftirlætinu. Bloggurunum.

Listi minn í Eftirlætinu er ekki langur. Líklega í kringum þrjátíu manns. Það er sá kjarni sem mér fellur við. Stundum set ég inn nöfn sem vekja forvitni mína, til dæmis á Blogggáttinni. Flestum eyði ég fljótlega.

Í morgun leit ég inn hjá fólkinu sem mér hugnast. Það er eins og að bjóða kunningjum góðan dag. Það er gott að eiga kost á þessum samskiptum. Mér líður þannig núna að ég ákvað að láta í ljós þakklæti til þessara þrjátíu bloggara sem eiga fastan sess í Eftirlætinu í tölvunni minni. Geri það hér með.

Þeir eru eins og sólin sem vakti mig í morgun. Það var svo vinalegt. Vinsemd er verðmæti.

,,…því vinátta skerpir okkur til hugsana og athafna.“ (Siðfræði Níkomakkosar. Bók VIII. Aristóteles.)

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.