Kreppan, dagblöðin og ráðamennirnir

Morgunblaðið hvetur okkur alþýðuna til að leika á kreppuna. Það kom fram í mánudagsblaðinu. Stór fyrirsögn á baksíðu, „Kreppan áskorun“ og heilsíða inni í blaðinu.

Morgunblaðið hvetur ekki ráðamenn til að haga sér í samræmi við kreppu alþýðunnar, samanber ferðalög til Kína þótt þeir séu ekki í liðinu. Þar sést ekki stór fyrirsögn sem segir: Áskorun á ráðamenn að haga sér í samræmi við þrengingar almennings.

En auðvitað eiga auðmenn bæði Moggann og Fréttablaðið og bankana með háu vextina sem eru rótin að háu bensín- og olíuverði og áburðarverði og rekstrarkostnaði og komast allstaðar að með puttana. Ósköp finnst mér dagblöðin eiga bágt.

En svona leggur Mogginn til að við breytum um lífsstíl og leikum á kreppuna:

Hættu að fá þér Capuccino, heltu á heima.
Kauptu í matinn í lágvöruverslunum.
Hættu að kaupa plastpoka við kassana.
Hættu að kaupa bækur.
Hættu að aka bílnum þínum.

En þessi ráð Moggans hafa lítil áhrif í mínu lífi.

Ég hef aðeins keypt Capuccino tvisvar á ári.
Ég hef verslað í Bónus síðastliðinn tíu ár.
Ég á tvo taupoka til að bera matvöruna heim í.
Ég fékk þrjár bækur á bókasafni í fyrradag.
Ég reyni að láta eina bensínfyllingu nægja á mánuði.

Mér finnst að dagblöðin eigi að gefa ráðamönnum góð ráð til að haga sér eins og ábyrgt fólk og hrópa á þá með stóru letri á útsíðunum.

Eitt andsvar við „Kreppan, dagblöðin og ráðamennirnir“

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.