Ærið tilefni

Í tilefni dagsins bakaði ég pönnukökur um áttaleytið í morgun. Ásta þeytti rjóma og tók til trönuberjasultu. Síðan lagaði hún kakó. Við fögnuðum upphafi dagsins með rjómapönnukökum og kakói með þeyttum rjóma. Enda tilefnið ærið.

Það var nefnilega fyrir fimmtíu árum sem við settum upp hringa að morgni dags 17. júní og opinberuðum trúlofun okkar. Það var í húsi móður minnar, Bjargi við Suðurgötu. Þetta var dagur mikillar hamingju.

Í framhaldi fórum við niður í miðbæ og blönduðumst fjöldanum þótt við sæjum ekkert nema hvort annað. Í tilefni dagsins borðuðum við laxamáltíð á Gildaskálann í Aðalstræti. Veitingamaðurinn útdeildi lipurð og elskulegheitum og óskaði okkur alls hins besta.

Ég man lítið eftir laxinum en mjög vel eftir Ástu. Við vorum innhverf og upptekin hvort af öðru. Við höfum reynt að halda þann sið að borða alltaf lax 17. júní. Í dag býður Ásta út í mat. Hún pantaði borð fyrir skömmu. Það er langt síðan við höfum verið í miðbænum þennan dag.

Við erum glöð og fögnum deginum. Lítum til baka og rifjum upp alla góðu dagana sem við fengum. Þeir eru miklu fleiri en hinir. Og við þökkum Guði fyrir það.

4 svör við “Ærið tilefni”

  1. Hjartanlegar hamingjuóskir!
    Þá er 50 ára brúðkaupsafmæli ekki langt undan… eða hvað? Vona að dagurinn hafi verið ykkur yndislegur.
    Kærar kveðjur.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.