Dauðasyndirnar – ærsl og alvara

Við sáum Dauðasyndirnar í Borgarleikhúsinu í gærkvöldi. Sýningin er vissulega mikill gleðileikur. Leikararnir mæta gestum sýningarinnar, með spaugi og áreiti, strax frammi við dyr þegar þeir opna salinn. Þeir bjóða fólki til sætis með ærslafullu látbragði og reyna að fá það til að slaka á og létta af sér leikhúss hátíðargervinu.

Leikararnir sýna mikinn snilldarleik og færni í fimleikum. Akróbat. Halldóra Geirharðsdóttir er, umfram það að vera þessi hrífandi leikari sem allir þekkja, alger snillingur í líkamlegri tjáningu. Þarna sýndi hún svo stórkostlega tilburði að enginn vegur er að lýsa þeim svo að vel fari. Sjón er sögu ríkari.

Leikhópurinn allur fer á kostum. Sýningin streymir fram af miklum krafti og slær hvergi af. Kraftmikið glens og spaugileg atriði með ívafi alvörunnar. Í gærkvöldi stóð sýningin yfir í 100 mínútur. Ekkert hlé. Bergur Þór leikur viðamikið hlutverk og skilar því frábærlega. Það gera þær einnig Harpa Arnardóttir og Halla Margrét.

Myndin er tekin að láni úr sorglega lélegri leikskrá.

Tónlistin í leiknum er kafli út af fyrir sig. Þekkt verk tónbókmenntanna hljóma með viðeigandi útsetningum eða útúrsnúningum, sbr. Stabat Mater Pergolesis. Þá var einkar þægilegt að heyra lagið úr Tvöföldu lífi Veronique. Sum laganna eru eftir íslenska höfunda. Sem og textarnir.

Þegar Guðmundur Böðvarsson frá Kirkjubóli sendi frá sér þýðinguna á Tólf kviðum úr Gleðileiknum guðdómlega, eftir Dante Alighieri, eignaðist ég bókina fljótlega. Og las. Man enn hvað ég dáðist að bragarhættinum sem Guðmundur náði fram af sinni alkunnu orðaleikni. Þá þóttist ég og skilja að á bak við bragarháttinn hlaut að liggja mikið erfiði og öguð vinna.

Fyrir mér varð ljóðið strax alvörumál. Þrátt fyrir ádeiluna og háðið. Orðaforði og málvenja þess tíma sem það er ort á, hljómar vafalaust eins og grín í eyrum nútímamanna. Dante var uppi liðlega 200 árum á undan Marteini Lúter. En öllu gríni fylgir alvara. Í gærkvöldi lagði ég mig fram um að greina þessa alvöru í gegnum ærslin. Kannski hló ég minna fyrir vikið. Ásta skemmti sér konunglega og skellihló á köflum sem og flestir áhorfendur.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.