Og þá fór bíllinn að dansa

Ég kom út úr Húsasmiðjunni í Skútuvogi kl. 15:45. Hafði keypt eina dós af Benarolíu til að bera á útiborðið í Litlatré. Lagði dósina í aftursætið í bílnum og settist undir stýrið. Fann fyrir tilhlökkun að fara í sveitina á morgun og sönglaði smávegis. Og þá fór bíllinn að dansa. Hann dúaði. Furðulegt af bíl að smitast af kátínu eigandans.

Eftir nokkrar sekúndur þóttist ég skilja hvað olli bíladansinum og kveikti á útvarpinu. Það var svo klukkan fjögur sem fregnirnar bárust á ljósvakanum. Skjálfti 6,8 og margvíslegar lýsingar frá Selfossi. Ófullkomnar þó. Þegar ég kom upp á sjöundu, lágu myndarammar á gólfinu og aðrir höfðu fallið í hillunum. Þannig að húsið hefir dansað líka.

Vona að engir hafi slasast.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.