Að gleðjast yfir og með vinum II

Það ríkti einlæg gleði í sálum okkar Ástu og hjörtum fyrir viku þegar Erlan okkar var mætt í Litlatré og sýndi okkur nokkra af uppáhaldstöktum sínum. Veðrið þá var reyndar óhagstætt og við yfirgáfum staðinn áður en Erlan hafði lokið ferðasögunni sinni. Hún lauk henni í gær. Og það reyndist vera harmsaga.

Það kom nefnilega í ljós að maki hennar hafði ekki náð til landsins. Raunar áttum við okkur ekki á, hvort það er karlinn eða kvenfuglinn sem komst alla leið. Þess vegna tölum við um makann. Og hegðunarmunstur fuglsins, ekkilsins eða ekkjunnar, er allt öðru vísi en þegar þau voru hér bæði og ástin lék í vængjum þeirra, stéli og fljúgandi fasi.

Áður fór parið, eftir að hafa sest á grindverkið fyrir framan húsið augnablik og kastað mæðinni, rakleitt norður fyrir húsið, upp í gaflinn og undir þakskeggið, þar sem þau höfðu fjölgað sér undanfarin sumur. Eða allt frá því að þak var sett á húsið. Og við mannfólkið höfum dregið að ganga frá þakskegginu til þess að veita þeim forgang að staðnum.

Þá hófst hver dagur með því að þegar Ásta dró upp rúllugardínuna í svefnherberginu, en glugginn er einmitt á norðurgaflinum, þá leiðir hljóðið svo vel í timbrinu að fuglinn kom samstundis á gluggann og sagði „góðan dag“. Svo flaug hann í hring og sagði aftur „góðan dag“ framan við húsið þegar rúllugardínunum þar var rennt upp. Þetta var klukkan liðlega sex.

Maríuerlan er einsömul í ár

Þetta var svo elskulegt. Svo flugu þau og settust á bílþakið og tíndu upp allar flugur sem þar settust, komu aftur og hlupu eftir grindverkinu. Eftir að egg voru komin í hreiðrið þeirra dansaði bara annar fuglinn við okkur í einu. nema kannski stutta stund um miðjan dag þegar sólin skein og hitinn komst í 18 til 22 stig.

En nú er Erlan ein á ferð. Og hún fer ekki norður fyrir húsið. Hún sest ekki á bílinn minn og rétt drepur niður fæti á grindverkinu. Mér sýndist þó í morgun að hún vildi segja mér eitthvað. Og ég ímyndaði mér að hún væri sorgmædd og vildi segja mér að hún væri að vonast til að hún fyndi nýjan maka. Það væri þó ekki einfalt mál.

Það yrði að vera einhver sem vildi elska hana og koma með henni og gera sér bústað undir þakskegginu á Litlatré. Það yrði mikil huggun. En kannski fer svo bara fyrir henni eins og Írenu í bók Kundera; Fáfræðin. Það var svo nöturlega tómlegt og allslaust og vonlaust og sorglegt. Hvernig Írena var skilin eftir einsömul uppi í hótelherbergi, þrátt fyrir þessa einlægu þrá hennar eftir ástvini.

Eitt andsvar við „Að gleðjast yfir og með vinum II“

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.