Að gleðjast yfir og með vinum

Hún var svolítið feimin í fyrstu. Kom fyrir hornið, stansaði augnablik og hvarf aftur. Litlu síðar endurtók hún þetta. Kom fyrir hornið, horfði raunar í aðra átt, tifaði, hvarf svo. Þetta endurtók hún nokkur skipti. Vægur gleðiskjálfti, kannski 1.5 á Richter, leið um hjartataugarnar í mér. Hún var komin.

Það hafði farið um mig vottur af kvíða síðustu helgar. Allskyns hugsana órar fóru af stað. Mögulega var hún hætt við mig. Þá varð ég hnugginn. Reyndi samt að tína til rök á móti, en eðlislæg svartsýni kom sér alltaf að. Svo kom hún fyrir hornið eina ferð enn og við stóðum þarna og horfumst í augu. Svo hóf hún sig og flaug umhverfis kofann í þessum stóru glaðlegu bylgjum sem einkenna hana.

Það rifjaðist upp fyrir mér atvik frá fyrra lífi. Ég kom að Gilsbakka snemma um vor. Það var annað sumarið mitt þar. Það var fernt í heimili. Bóndinn Sigurður, húsfreyjan Anna, Magnús bóndasonur og Nikólína vinnukona. Hún var ævivinnukona á bænum. Allir höfðu heilsað mér djarflega nema Nikólína. Hún stóð við hliðina á stóru AGA eldavélinni og virtist bíða eftir frumkvæði mínu.

Hálffeiminn beið ég svo eftir frumkvæði hennar. Þetta var kjánalegt. Mér fannst hún eiga að heilsa því að hún var miklu eldri. Einhvern veginn væflaðist þetta fyrir okkur og vorum við óheilsuð fram á kvöld. Þá lét ég til skarar skríða: Sæl vertu Lína. Þá hló hún á sinn sérstaka hátt. Eiginlega ofan í bringuna á sér og setti fingur fyrir munninn. Hún sagði að sér hefði alltaf fundist að sá sem kæmi að, ætti að heilsa. En við vorum ágætir vinir.

En nú er Erla komin í Litlatré, eina ferðina enn, alla leið frá Cameron í Afríku. Við hengdum út matarkúlu handa henni að gæða sér á.
Það eykur á yndi lífsins að gleðjast yfir og með vinum.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.