Gjörningar í Samhjálp III

Stjórn Fíladelfíusafnaðarins, sem jafnframt var stjórn Samhjálpar hvítasunnumanna, samþykkti nokkuð auðveldlega að Samhjálp keypti Hverfisgötu 42. Þó var það skilyrði sett að hún fjármagnaði kaupin sjálf. Enn fórum við á hnén.

Samverjinn hélt áfram að njóta blessunar Guðs. Gefnar voru út bækur og hljómplötur. Sölumenn fóru um landið og buðu vörur Samhjálpar hvítasunnumanna til kaups. Þjóðin tók mönnunum vel og seldust vörurnar í tugum þúsunda eintaka. Gengið var frá kaupum á Hverfisgötu 42 árið 1980.

Það blasti við að mikið verk var framundan við endursmíði og innréttingar. Sindrasmiðjan í bakhúsinu hafði öll einkenni járnsmiðju þar sem rafsuða, logsuða, stórvirkar járnsmíðavélar, rennibekkir, sagir og smurolía höfðu sungið sína söngva um langt árabil. Gólfin voru óslétt og ýmiskonar gryfjur og aukaveggir sem þurfti að breyta. Við opnuðum kaffistofu í fyrrum verslun Sindra frammi við götuna árið 1981.

Um páska 1983 var samkomusalurinn vígður. Hönnun hans hafði tekist vel sem og framkvæmd öll. Salurinn var hlýr og aðlaðandi og umfram allt steinsnar frá miðbæ Reykjavíkur. Hófst nú kraftmikið félagsstarf í Þríbúðum. Samhjálparhúsinu. Starf sem miðaði að því að ná til einstaklinga sem oft voru nefndir utangarðsfólk. Sumir hverjir höfðu margreynt að taka sig á en ekki gengið sem skyldi.

Smámsaman tókst að kaupa íbúðir uppi í húsinu. Var Stoðbýlið stofnað 1986. Þá lagði Borgin lið, keypti íbúðir í húsinu og leigði Samhjálp þær. Þar kom að allt húsið þjónaði starfseminni. Einstaklingsherbergi urðu fjórtán. Séríbúð var fyrir konur á efstu hæðinni.

Á vordögum 1997 festi Samhjálp einnig kaup á Hverfisgötu 44, framhúsi og bakhúsi. Bakhúsið hafði verið aðalsalur Söngskólans í Reykjavík um árabil. Var nú hafist handa við að innrétta hann, setja upp eldhús með góðum tækjum og gera aðstöðu fyrir kaffi – og matarstofu. Var kaffistofan vígð í október sama ár. Mátti nú segja að öll aðstaða væri tilbúin fyrir nýja og gamla skjólstæðinga Samhjálpar hvítasunnumanna.

Á þessum árum hafði ný stjórn tekið við Fíladelfíusöfnuðinum. Skipt hafði verið um forstöðumann og alla stjórnarmeðlimi. Það var umdeild breyting. Eins og fyrr getur var stjórn safnaðarins einnig stjórn Samhjálpar hvítasunnumanna. Þá kom enn nýr forstöðumaður að Fíladelfíusöfnuðinum fáum árum síðar. Og að sjálfsögðu fylgja nýjum mönnum nýjar hugmyndir og nýir siðir. Við Ásta ákváðum að draga okkur í hlé í árslok 1999.

Húsarústir

Nú er Samhjálp hvítasunnumanna ekki lengur í miðbæ Reykjavíkur. Húsin, með samkomusal, Stoðbýli og kaffistofu hafa verið seld. Í staðinn var keypt húsnæði í Stangarhyl í útjaðri borgarinnar. Átta kílómetra frá miðbænum. Kling og Bang auglýsti í Fréttablaðinu gjörninga í samkomusalnum sem Samhjálp átti í Hverfisgötu 42.

Húsarústir

Það er sérkennileg tilfinning að aka Hverfisgötuna og sjá húsarústirnar. Það tekur í.

Eitt andsvar við „Gjörningar í Samhjálp III“

  1. Hverfisgata 44 stendur nú við Bergstaðastræti þar sem verið er að gera það upp. Það er býsna undarlegt að sjá húsið þar. Það verður forvitnilegt að fylgjst með hvort það fái líf.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.