Þrjár appelsínur

Auðvitað vildi ég ekki vera slakari en hinir og þess vegna fór ég út í bílinn minn síðdegis og setti í gang, þótt afkoma mín sé þannig þessi misserin að ég á varla fyrir bensíni síðustu vikuna í hverjum mánuði. Eins og svo margir aðrir. Þó er ég hættur að keyra bílinn nema stutta túra tvisvar í viku. En ég vildi ekki vera eftirbátur hinna.

Svo ók ég niður á Dalveg, framhjá Bónus í Smáranum og þegar ég var komin framhjá hringtorginu, norðan við Smárann, ók ég bara á átta kílómetra hraða. Fljótt safnaðist löng bílalest fyrir aftan mig því þetta er mikil umferðargata í báðar áttir og ekki þorandi að taka framúr.

Fljótlega byrjuðu bílarnir fyrir aftan mig að flauta og þá flautaði ég bara líka. Lá á flautunni alla leið upp á planið hjá Bykó. Þar snéri ég við. Ók síðan á sama hátt til baka niður Dalveginn, á átta kílómetra hraða. Og aftur safnaðist löng lest fyrir aftan mig og aftur tóku þeir að liggja á flautunni. Og ég líka.

Þetta gerði ég þrisvar sinnum, í hvora átt, því eins og allir vita þá er allt þegar þrennt er. Þegar ég ók framhjá sýslumanninum í þriðju ferðinni og sá löggurnar flykkjast út í löggubílana þá þótti mér vissara að auka hraðann dálítið og svínaði kringum hringtorgin og skaut bílnum inn í bílakjallarann undir Bónusbúðinni.

Alsaklaus á svipinn og blístrandi lagstúf rölti ég inn í búðina og hjálpaði konu að ýta innkaupakerrunni sinni. Sjálfur keypti ég þrjár appelsínur og fór svo heim.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.