Fann svo sárt til með manninum

Þegar fólk vegna aldurs hefur verið sett út af vinnumarkaði og tekur að glíma við að finna nýjan takt til að lifa í, gerist eitt og annað mismunandi ómerkilegt í tilveru þess til að byrja með. Sem dæmi, þá geta innkaupaferðir í matvöruverslanir, sem áður voru fremur leiðinleg nauðsynjaverk, orðið ríkuleg tilbreyting í hversdagsleikanum sem hægt er að fá talsvert út úr. Ef áhugi er á því.

Nýlega fórum við Beinagrindin í verslun Nóatúns í Smáralind til að kaupa lítilræði til páskanna. Athygli okkar vakti fullorðinn maður, sem leitaði ákaft í hillum að einhverju sem hann vantaði. Við veittum honum athygli, fyrst í stað, fyrir útganginn á honum. Hann var í óreimuðum strigaskóm, alltof víðum joggbuxum og köflóttri skyrtu fleginni. Hann hélt á handkörfu verslunarinnar í annarri hendinni.

Hann var nokkuð þybbinn, gráhærður með útstandandi augu og órakaður. Hvað eftir annað tók hann vörur og setti í körfuna og skilaði þeim aftur í hillu litlu seinna. Við kælivöruna tók hann upp pakka með kjöti eða farsi eða fiski og las á verðmiðana og leitaði greinilega að ódýrustu pökkunum því að hann var búinn að lesa á ótal pakka þegar hann loks setti einn eða tvo í körfuna.

Við Beinagrindin vorum að ljúka okkur af á kassanum og búin að setja í innkaupapoka það sem við höfðum keypt þegar náunginn kom að kassanum. Stúlkan bauð honum góðan dag á íslensku. „Dag,“ sagði hann. Þegar stúlkan nefndi upphæðina sem maðurinn skyldi greiða, stansaði hann við og bað um að fá að skila hakki sem þar var. Stúlkan tók því vel og nefndi nýja tölu.

Aftur bað maðurinn stúlkuna um að draga hlut frá og enn nefndi stúlkan nýja tölu. Við fylgdumst með þessu ég og Beinagrindin og ég var alveg handviss um að hér væri sárafátækur eldri borgari sem einfaldlega ætti ekki fyrir mat og tók að finna sárt til með manninum. Þegar við vorum komin út á bílastæðið sagði ég við Beinagrindina að ég hefði átt að gefa honum þúsund kall.

Þá vakti hún athygli mína á því hvar maðurinn gekk að þessum svakalega stóra og mikla tinnusvarta og gljáandi Benz fólksbíl, fór inn í bílinn og ók burt virðulega eins og glæsivagni sæmir. Við horfðum á þetta saman, ég og Beinagrindin, orðlaus bæði af undrun og mótsagnakenndum hugsunum. Hún hvíslaði um leið og hún stakk olnbogabeini undir handlegginn á mér: „Eins gott að þú gafst honum ekki þúsundkall.“

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.