Hvað finnst þér um svona fyrirbæri?

Sumt sem maður upplifir er svo furðulegt. Það var um helgina að mig dreymdi þennan elskulega draum. Það var sumar og landið grænt og himininn blár. Sól í heiði og hlýtt. Búsmali í högum.

Við Ásta mín vorum á göngu úti á landi. Gengum upp með allstórri á. Ég var með myndavélina mína og tók margar myndir. Við ána voru ýmis tilbrigði í landslaginu. Á einum stað skagaði klettur út í ána. Við klettinn óx hvönn. Birtan kom vel í sviðið og ég tók myndir. Lagðist á hnén til að lyfta hvönninni og þá náðist sveitabær hinu megin við ána í bakgrunn.

Svo fékk ég Ástu til að sitja fyrir. Hún var í rauðri treyju og mjög fótogen þennan dag. Á einum staðnum féll áin um dálítið gljúfur og þar var foss. Grænn hólmi var í miðri ánni skammt neðan við fossinn og straumandapar í strengnum sem þar myndaðist. Ég náði myndum af þessu. Svo settumst við Ásta á grænan bala og áttum gott eins og hríslan hans Páls Ólafssonar.

Við höfðum lítinn bakpoka með okkur og í honum var hitabrúsi með kaffi í. Ásta hafði smurt fáeinar samlokur með osti og tómötum og bauð nú til veislu. Sjaldan smakkast nesti betur en einmitt úti undir berum himninum. Í lygnu við árbakkann fjær rak óðinshana afturábak. Fjöður af álft flaut hjá og hrossagaukur spilaði ákaft á stélfjaðrirnar fyrir ofan okkur. Enn tók ég myndir.

Við skrifuðum í sandinn

Sandeyri varð á leið okkar og við skrifuðum í sandinn eins og frelsarinn í guðspjallinu. Allt var svo gott og við fundum fyrir heitum tilfinningum milli okkar. Svo hrökk ég upp við að sterk vindhviða skellti glugganum í svefnherberginu aftur. Og af því að þetta var um hánótt þá var auðvitað myrkur í svefnherberginu. Ásta svaf sem fastast.

Myndirnar úr draumnum

En daginn eftir, og það kom mér verulega á óvart, þegar ég undir áhrifum af draumnum tók myndavélina, sem er stafræn myndavél, úr töskunni og fór að hlúa að henni, komst ég að því að myndirnar sem ég tók í draumnum voru allar í henni.

Hvað finnst þér um svona fyrirbæri?

6 svör við “Hvað finnst þér um svona fyrirbæri?”

  1. Einskonar endurupplifun atburðar, nema í draumi? Ég minnist slíkra drauma, en þeir hafa þó aðeins verið um atburði nýliðins dags.

    E. t. v. er þetta undirvitundin að rifja upp eitthvað einstaklega ljúft og skemmtilegt. Kannski var þetta aðeins áminning um að bjarga myndunum úr myndavélinni. 🙂

  2. Kæri Sigurður. Ég setti tvær af þessum dularfullu
    myndum í pistilinn til að undirstrika undrun mína.
    Hvað finnst þér um svona fyrirbæri?

  3. Nei, því miður. Það eru ekki þessar myndir
    sem þú vísar til.

  4. Ekki þessum, nei. En lýsingarnar engu að síður svo góðar að ég taldi mig þess fullvissan að hafa séð þessar myndir – í vöku.

    Þetta hefur þó verið sérkennileg upplifun. 🙂

  5. Glöggur ertu Sigurður. En nota bene, það eru
    engar myndir í þessum pistli.

  6. Eftir þennan lestur leið mér eins og ég hefði séð þessar sömu myndir hér áður. Þá fór ég að leita. Getur hugsast að umræddar myndir hafir þú birt í færslunni „Fetað í eigin spor“ þann 5. júlí 2007?

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.