Dekompression of Spinal Nervroots

Stór maður í grænum slopp beygði sig yfir mig með súrefnisgrímu í höndunum. Ég opnaði munninn til að spyrja…………………….. Þremur og hálfri klukkustund síðar vaknaði ég á Vöknun. „Finnur þú til?“ spurði stúlka. „Ég veit það ekki,“ ætlaði ég að segja en ekkert orð kom. Hún sprautaði mig.

Litlu síðar vaknaði ég aftur við skerandi sársaukavein konu. „Ég get þetta ekki, ég get þetta ekki, “ emjaði hún. Hjúkrunarkona gekk til hennar og sagði: „Ég gef þér morfín.“ Ég reyndi að skima í kringum mig. Sá ekkert. Fann fyrir þyt í fötum starfsmanna. Konan tók að emja að nýju á efstu tónum skerandi kvenraddar. „Ég get þetta ekki, Æ æ,æ,æ, ég get þetta ekki.“ Hjúkrunarkona gekk til hennar og sagði: „Ég gef þér morfín.“ Þá hljóðnaði á Vöknun.

Litlu síðar var mér ekið til baka á stofuna þar sem ferillinn hófst. Allskyns leiðslur voru festar við mig og í mig. Þrír karlar voru þar fyrir. Einn var í bláum slopp og andaði upphátt og stundi í hverjum andadrætti. Gamall maður reif kjaft við ættmenni sem vildu senda hann á Rauðakross hótel. „En ég vil ekki fara þangað,“ margendurtók hann skrækri frekri röddu. Sá þriðji lá hljóður. Ég líka.

Sársauki

Margvíslegir verkir tóku að stinga mig. Og nísta. Þá bítur maður saman tönnunum og herpir kjálkavöðvana. Rifjar upp nokkur blótsyrði í bold. Segir innan í sjálfum sér. „Andskotinn.“ Kona frá Tælandi kom með matarbakka. Sagði stundarhátt í syngjandi tóni: „Matur? Kaffi? Svart? Ha?“ „No matur,“ hugsaði ég. Sagði; „Black.“ Mér tókst ekki að snúa mér nægilega mikið til að geta drukkið kaffið.

Blótsyrði í Bold

Svo komu þær í röð. Fyrsta: „Mæla hitann hjá þér.“ Önnur: „Mæla blóðþrýsting hjá þér.“ Þriðja: „Fer vel um þig.“ „Nei.“ „Finnur þú til?“ „Já.“ „Gef þér morfín.“ Það var svo morguninn eftir sem þær komu tvær og sögðu: „Jæja, nú förum við fram úr og stígum í fæturna. Þá skildi ég konuna á Vöknun sem emjaði sem mest.

Og slitu mig í sundur

En þessar tvær tóku utan um mig og toguðu mig á fætur. Déskotans fantarnir. Þær slitu mig í sundur. Svo stóð ég eins og dauðadæmdur maður í Ausvitch og gat mig hvergi hrært. Væri ekki þvagleggur tengdur inn í mig hefði ég vafalaust pissað á mig. Þær stóðu upp við mig. Studdu við mig. „Getur þú stigið eitt skref?“ Án þess að svara færði ég annan fótinn tíu sentímetra. „Duglegur. Duglegur, hrópuðu þær.“ Eftir þrjú skref og aftur til baka átti ég að setjast. Það var enn verra.

Það var svo árla á þriðja degi sem ég reis upp og tók að fikra mig um gangana með stóra „löbbu“ mér til stuðnings. Og síðdegis þann dag sögðu þær mér að hætta með „löbbuna“. Fyrir hádegi á fjórða degi fékk ég að fara heim. Nú er ég þar. Eftir nokkrar vikur spyr svo barnabarnið: „Afi, var vont á spítalanum?“ Og maður hugsar sig um, rifjar upp Fjallgöngu Tómasar og segir góðlátlega „Ekki svo, barnið mitt. Ekki svo.“

3 svör við “Dekompression of Spinal Nervroots”

  1. LOL.

    Velkominn aftur í raunheima — og netheima. Fínar myndir af þér. Ég sé að þú ert allur annar.

  2. Ógn er leitt að lesa um ástæðu fjarveru þinnar frá bloggheimum að undanförnu. Með ósk um skjótan og góðan bata. Annars er bara að bíta áfram á jaxlinn og „bölva í bold“! 🙂

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.