Manntafl – stjórnmál

Frá fyrstu tíð dáðist ég ævinlega að skákmönnum. Mönnum sem tefldu skák. Yfirleitt voru þetta yfirvegaðir menn, háttvísir og hugsandi. Bæði karlar og konur. Þá þótti mér alltaf sérlega flott í lok skáka, og lýsa mannviti og sjálfsstjórn, þegar menn tókust í hendur með gagnkvæmri virðingu. Örfáir menn hegðuðu sér á annan veg. Tóku tapi með vanstillingu. Manni fannst minna til þeirra koma.

Stjórnmál eru áþekk skák, manntafli, nema að því leyti að í stjórnmálum eru of margir vanstilltir einstaklingar. „Tjarnarkvartettinn“, svokallaði, sýndi það vel fyrir hundrað dögum, þegar hann gekk þrútinn af sjálfsaðdáun og bar hvolpana til móts við fréttamenn við Reykjavíkurtjörn, að hann kunni vel að sigra og bar sig borginmannlega. Enda tilveran sæt.

Í þessari viku hefur sami kvartett tapað skák og þá kemur í ljós að hann kann ekki að tapa og tekur því með vanstillingu. Óneitanlega finnst manni þeir hafi misst virðingu og minna til þeirra koma.

Framkoman minnir á dreng í hópi fjögurra systkina. Ein jólin kom Lúdó spil úr jólapakka. Fljótlega var tekið til við að spila Lúdó. Kom þá í ljós að drengurinn þoldi ekki að tapa. Varð hann reiður og sár og grenjaði einhver býsn og öllum til ama. Fóru leikar þannig að foreldrarnir urðu að leggja til að drengurinn hætti þátttöku í spilinu svo að aðrir gætu stundað það.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.