Þriðji maðurinn

Rakarinn var að snyrta á mér kollinn. Við höfðum rætt, að hans frumkvæði, hin ýmsu mál dægranna. Þegar þau almennu, veðrið, fjármagnsmarkaðurinn, fatakaup stjórnmálamanna og lenging dagsins voru afstaðin, komum við að þorra og súrmeti. Súrum eistum og lundabagga. Það var þá sem þriðji maðurinn kom inn og fylgdist með samræðunum. Við erum jafnaldrar.

Við rakarinn vorum sammála um að súrmetið væri þungt í maga og að áhuginn á því minnkaði með aldrinum. Nema rengi. Súrt rengi. Söknuðum þess. Þá sagði ég frá því þegar ég ellefu ára og fór í fyrsta sinn í sveit upp í Borgarfjörð. Stafholtstungur. Þeir komu tveir á jeppa, bóndinn Jósef og Rabbi, til að sækja mig suður á Bjarg. Grímsstaðaholti. Rabbi ók. Jeppinn var troðfullur af vörum og tæpast rúm fyrir mig innan um þær. En ég var þvengmjór á þeim árum.

Aftan í jeppanum var kerra. Einnig hún var hlaðin vörum og segl breytt yfir. Á leiðinni í Borgarfjörðinn var stansað í Hvalstöðinni í Hvalfirði. Þar keypti bóndinn talsvert magn af fersku rengi. Því var komið fyrir á kerrunni undir seglinu. Síðan var haldið áfram. Næsta dag verkaði húsfreyjan rengið, sauð það og súrsaði og var þetta oft á borðum um sumarið. Ekki voru allir bitarnir jafngóðir. Þriðji maðurinn blandaði sér nú í samræðurnar:

„Hvað varstu gamall?“ spurði hann. „Ellefu ára,“ svaraði ég. „Ég var líka í sveit ellefu ára. Austur í Skaftártungu. Kennarinn minn í Melaskólanum hafði milligöngu um það. Þar voru líka tvær stelpur úr Reykjavík. Þær voru ellefu ára eins og ég. Þarna voru fimm kýr og við vorum látin mjólka. Ég og stelpurnar. Í hádeginu þegar heimafólkið lagði sig var okkur alltaf fengið eitthvað verkefni til að sinna. Þetta var þrælahald. Ekkert annað en þrælahald.“

Nú hló rakarinn og endurtók orð þriðja mannsins: „Þrælahald. Þú hefur nú haft gott af því. Mannast við það.“ „Vafalaust hef ég haft það,“ sagði þriðji maðurinn, „en ég fékk líka 500 krónur í laun fyrir sumarið,“ bætti hann við hróðugur. „Hvað sagðist þú hafa verið gamall?“ spurði ég þá. „Ellefu ára,“ sagði hann, „ég var bara ellefu ára. Þetta var heilmikið fé í þá daga.“

Rakarinn burstaði á mér axlirnar. Ég stóð upp og sagði drjúgur með mig: „Ég fékk átta hundruð.“

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.