Vindkæling í Litlatré – 20°C

Liðna nótt fór frostið niður í sextán gráður. Það bætti úr skák að vindinn lægði niður í 0.4 m/s. Það var heiðskírt, stjörnubjart og birtan af tunglinu sindraði af hjarninu. Undir morgun minnkaði frostið smásaman og vindur jókst að nýju.

Snjótittlingar komu í flokkum og settust skammt frá kofanum í leit að æti. Þeir fengu niðurmulið brauð. Hrafn kom ofan úr Sámsstaðgili og hirti skorpurnar. Ég var varla búinn að þeyta þeim þegar hann greip þær. Sá var glaðhlakkalegur. Annars hef ég ekki viljað venja hann á okkur vegna mófuglanna á sumrin. Hann nefnilega étur ungana þeirra. Skömmin á honum.

Vindkæling var – 20°C um hádegi. Við ókum heim um miðjan dag. Færð var góð. Nokkur hálka í efri sveitum. Þorsteinn Gylfason var að sjálfsögðu með í för. Það er ekki auðvelt að leggja hana frá sér. Vandinn sem nokkuð tefur fyrir við lesturinn er mismunandi hugtök og „hugtakakerfi“.

Maður kemst ekki hjá því að staldra við og reyna að nálgast þau til að komast hinu megin við þau, þangað sem höfundurinn er. Það er æði margt í bókinni spennandi. Eins og til dæmis sigurverkið, dynameisið og megundir hlutanna.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.