Túlkun eða skilningur

Það er nú einhvern veginn þannig með sumar bækur þegar gluggað er í þær, eins og gjarnan er gert um jól til að gá að á hverri þeirra skyldi hefja lesturinn, þá grípa þær lesandann tökum sem verða til þess að hann festist við þær.

Sál og mál, Þorsteins Gylfasonar heitins, heimspekings, greip mig þannig tökum og hef ég naumast sinnt öðru. Grein hans um túlkun og skilning er mögnuð lesning og vekur mann til umhugsunar um atriði sem hollt er að velta fyrir sér. Túlkun eða skilningur.

Þorsteinn segir, „og vissulega þekkja menn mörg dæmi um það, að túlkun getur beinlínis komið í veg fyrir skilning.“ Þorsteinn tekur dæmi úr geðlæknisfræði. „Árið 1979 birti The New Yorker hryllilega frásögn ungrar konu, Carol Terry að nafni, sem hafði orðið afar veik og hafði þegar í upphafi veikinda sinna reynt að fremja sjálfsmorð.“

Geðlæknarnir sem önnuðust hana eftir sjálfsmorðtilraunina, „[…] sendu hana einnig í ýmis konar viðtöl og hópmeðferðir. Þá gáfu þeir henni ýmis lyf sem urðu á endanum til þess að hún varð öryrki ævilangt og var vistuð á geðheilsustofnun haltrandi, slefandi, skjálfandi og muldrandi.“ Bls. 203.

Fyrir tilviljun varð hún á vegi læknis sem komst að því með rannsóknum að „[…]frú Terry var haldin röskun á koparbúskap líkamans af völdum erfðafræðilegra þátta. Þessi röskun hafði verið þekkt síðan 1912 sem Wilsonveiki. Þessa veiki má lækna og frú Terry hefur nú fengið bata.“

Túlkun eða skilningur. Á undanförnum vikum hefur nokkur umræða verið í þjóðfélaginu um trúmál. Hafa ýmsir lagt þar orð í belg og sumir farið geyst. Margar skoðanir sem þar komu fram benda einmitt til þess að þær hafi orðið til af túlkunum fremur en skilningi.

En það er einmitt sá vandi sem Þorsteinn Gylfason fjallar um í kaflanum Túlkun eða skilningur og segir: „Til er margs konar túlkun. Þrátt fyrir það virðist skynsamlegt að halda því fram, jafnvel alhæfa, að túlkun sem slík (en ekki einungis léleg túlkun) standi oftar en ekki í vegi fyrir skilningi eða komi í hans stað, fremur en að hún þjóni honum.“

2 svör við “Túlkun eða skilningur”

  1. Takk fyrir kveðjuna Óliþ Ég er búin að lesa Bíbí og unglingabókina sem dóttirin fékk í jólagjöf.
    Núna er ég komin í annan skóinn á leiðinni útí bókabúð að kaupa Þorstein . ..

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.