Með tárvotum augum

Þetta er dagur tilhlökkunar. Hann er dagur heilags Þorláks. Tilhlökkunin felst þó í skötuveislu. Fyrsta hamingjubylgjan fólst í að undirbúa skötuna, snyrta hana og skera til. Lyktin er enn á höndunum þótt ég hafi þegar sápuþvegið mér fimm sinnum. Svo tók ég til kartöflur, tólg og rúgbrauð. Bíð nú eftir klukkunni.

Í fyrra vorum við saman komin fimmtán manns á Þorláksmessu. Þá kláraðist hvert einasta gramm. 4.7 kíló. Nú keypti ég 5.0 kíló, enda verðum við bara fjórtán. Og lítinn salfiskbita fyrir einn skemmra kominn.

Þau mæta börnin okkar Ástu ásamt mökum. Barnabörn og barnabarnabörn eru orðin svo mörg að við einfaldlega ráðum ekki við svo stóran hóp. Enda segja þau flest „oj barasta“ þegar skata er nefnd og gretta sig svakalega. Við hin höllum okkur með tárvotum augum yfir diskana.

Það minnir á frásögu sem einn vinnufélaginn við Búrfellsvirkjun, fyrir margt löngu, sagði, þegar menn voru að búast til heimferðar í jólafrí. Hann hafði verið á landróðrabáti í Vestamannaeyjum. Frí var gefið yfir jólin. Hann ráfaði um bæinn í hálfgerðu reiðileysi á Þorláksmessu. Allt í einu víkur sér að honum þrekinn maður í þykkri ullarpeysu með kraga og býður honum með sér heim í skötu. Sem hann þáði.

Allmargt fólk var þar samankomið og hafði þegar sest til borðs sem hlaðið var kæstri skötu og tilheyrandi góðgæti. Ilmurinn (lyktin, stækjan) allsvakalegur. Þegar búið var að skammta ríflega á alla diska, lutu allir höfði og spenntu greipar og húsbóndinn fór með alllanga þakkarbæn.

Gesturinn gerði eins og hinir, laut höfði yfir diskinn sinn. En þar sem hann var fremur smávaxinn var andlit hans alveg niður við diskinn og lyktin svo sterk af skötunni að tárin runnu úr augum hans. Þegar húsbóndinn tók eftir tárum mannsins hækkaði hann röddina og þakkaði Guði fyrir iðrandi syndarann.

„Ég komst í stökustu vandræði eftir matinn,“ sagði sögumaður okkar.

2 svör við “Með tárvotum augum”

  1. Ég er kominn í vinnugallann og fer að leggja á stað. Saltfiskur er herramannsmatur.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.