Vitnisburður um storm

Það var kominn tími til að renna í sveitina og meta ástandið eftir þessar stormhviður sem gengið hafa yfir og enginn endir virðist ætla að verða á. Valdi daginn í dag til þess. Morguninn var þægilegur á vegunum. Þeir voru þurrir og umferð hæfileg.

Útigangs kusurnar hans Páls bónda á Signýjarstöðum, þessar sem breytast í fimm stjörnu steikur við slátrun, virtust ekki hafa fattað að stormurinn var genginn yfir og héldu sig enn í skjóli í láginni við malarnámurnar. Hugsanlega skynjuðu þær fimmtu lægðina á leiðinni.

Kýr í vari

Í Litlatré var allt með felldu. Kára hafði ekki tekist að naga neitt né jaga og var aðkoman harla góð. Veðurstöðin okkar, sem situr á tveggja metra staur úti í móanum, hafði samviskusamlega sent boð inn í hús þar sem þau birtast á skjá. Grafið á skjánum sýndi að sterkasta vindhviðan í síðustu viku hafði náð 42.4 m/s.

Svartar mæður, hvít afkvæmi

Við Stóra-Ás var allstór hjörð holdanauta á beit. Það vekur athygli þegar hún er skoðuð að kýrnar eru svo til allar svartar en kálfarnir hvítir. Ýmsar sögur um kynþáttafordóma úr útlöndum koma upp í hugann. Þeir virðast ekki trufla tilveruna á þessum slóðum. Bjarnastaðir eru þarna handan við Hvítá.

Litlu síðar hitti ég Ólaf bónda á Sámsstöðum. Hann var önnum kafinn við sauðfjárbúskapinn.Við ræddum þó veðrið og vindana og ég skilaði af mér pakka sem ég hafði verið beðinn fyrir.

Nýja eldhúsið

Í Hlöðutúni gladdist Guðmundur Garðar yfir nýrri eldhúsinnréttingu. Sú fyrri var frá 1936. „Þær gerast varla eldri,“ sagði hann, hellti tóbaki úr silfurbauk í lautina ofan við þumalfingurinn og saug upp í nefið. Og brosti.

Vitnisburður um storm

Undir Hafnarfjalli var vitnisburður um storm.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.