Klukkustund í Kringlunni

Í morgun fór ég í Kringluna. Átti tvö erindi. Það fyrra var að skoða ljósmyndasýningu Blaðamannafélagsins. Mesta ánægju hafði ég af elstu svarthvítu myndunum. Þær eru þarna. Frábærar myndir. Síðara erindið var að kaupa það sem mig vantaði til að gera góða fiskisúpu.

Þetta var um hádegi og það kom á óvart hvað fátt fólk var í Kringlunni. Kannski er fólk að bíða eftir nýju Visa-tímabili, en sagt er að við upphaf nýs tímabils séu viðskipti talsvert meiri en um mánaðamót.
Smellið á myndirnar til að sjá stærri gerð þeirra.

Það var fátt á ferli

Ég gaf mér því góðan tíma til skoða mig um. Þarna er mikill varningur af öllum hugsanlegum tegundum og stærðum og litum og glitrandi jólaskraut. En fátt fólk. Þegar ég hafði gengið eina ferð um neðri hæðina fór ég í rúllustiga upp á aðra hæð.

Þessi kynnti leikföng

Setning sem einhversstaðar er höfð eftir meistara Sókratesi kom í hugann. Hann hafði gengið um á útimörkuðum Aþenu og litast um, þegar maður nokkur heilsaði honum og spurði ljúflega hvert erindi hans væri þarna. Svaraði þá Sókrates og sagði: „Ég er að skoða hvað það er margt sem mig vantar ekki.“

Margir tala í síma

Ég komst að sömu niðurstöðu og Sókrates. Það er óskaplega margt þarna sem mig vantar ekki. En á árum áður var það svo að ég stóðst aldrei að koma við í Búsáhaldabúðinni og kaupa eitt eða tvö áhöld, pott, pönnu, skál eða ausu.

Nýtt Visatímabil

Eftir að hafa gengið tvær umferðir um verslunarmiðstöðina tók ég stefnu á Hagkaup með fiskisúpuna í huga. Mig vantaði grænmeti í grunninn. Á leið í grænmetisdeildina sá ég svangar hendur fá sér snarl í öskju úr grænmetisbar.

Svangar hendur

Drekaávöxtur

Drekaávöxt hafði ég aldrei séð áður.

Úr fiskiborðinu fékk ég ögn af þessu og aðra af hinu eins og sæmir þegar fiskisúpa er í áætlun. Átti heima í frysti afskurði af heilagfiski og rækjur.

Girnilegt fiskborð

…einni og einni mynd

Hélt svo ferð minni áfram og smellti einni og einni mynd. Í krydddeildinni hitti ég dr, Sigurð Örn Steingrímsson, fyrrverandi prófessor við guðfræðideild Háskóla Íslands. Hann rýndi í Ítalskar kryddvörur. Við spjölluðum góða stund. Það var ánægjulegt.

nammibarinn.jpg

Iwona

Loks var erindum lokið. Við kassann sat ung lagleg stúlka sem sagði „Góda dæn.“ „Góda dæn, “ sagði ég á móti. „Pólish?“ spurði ég. „Ja,ja. Póliss,“ sagði hún og brosti. Bætti svo við: „Nýjúhundraníútíóogsjei.“ „Viltu segja þetta aftur,“ sagði ég og brosti. „Nýjúhundraníútíóosjei,“ endurtók hún og skellihló. „Þú ert dugleg,“ sagði ég og „takk fyrir.“ „Somulei,“ sagði stúlkan. Hún heitir Iwona.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.