Pallborð í Neskirkju

Það var lærdómsríkt að hlýða á pallborðsumræður í Neskirkju í hádeginu í gær. Um þrjátíu manns mættu þar til að hlýða á sérfræðinga fjalla um nýja biblíuþýðingu. Augljóst er, og hefur margoft komið fram í fjölmiðlum, að margt fólk er langt frá því að vera sátt við þýðinguna.

Við pallborðið sátu Auður Ólafsdóttir, listfræðingur, Arnfríður Guðmundsdóttir, guðfræðingur, Jón G. Friðjónsson, málfræðingur, Jón Axel Harðarson, málfræðingur og loks Sigurður Pálsson, guðfræðingur, fyrrverandi prestur í Hallgrímskirkju og nefndarmaður í þýðingarnefnd Biblíunnar.

Orð, skoðanir og skýringar, þeirra málfræðinganna um nýju þýðinguna vöktu mestan áhuga hjá mér. Málflutningur þeirra, þekking á texta biblíunnar á hebresku og grísku og ýmsum yngri tungumálum, var heillandi og dæmin sem þeir tóku vel útfærð og rökstudd. Niðurstaða þeirra er að nýja þýðingin sé oft bókstaflega röng og vond. Mátti greina í tali Jóns Friðjónssonar hryggð yfir útkomunni og meðferðinni sem Biblían hefur hlotið í þessari nýju þýðingu.

Sigurður Pálsson lýsti þeim þrem meginmarkmiðum sem þýðingarnefndinni voru sett við upphaf þýðingarvinnunnar og mátti manni skiljast að þau væru svo í mótsögn hvert við annað að í rauninni væri ekki hægt að ná þeim. Það er umhugsunarverð niðurstaða.

Eftir að hafa hlustað á þetta ágæta hámenntaða fólk í hálfa aðra klukkustund, undirstrikaðist í huga mínum sú löngu mótaða skoðun mín að í textum biblíunnar, ekki bara þeirri íslensku, séu svo mörg vafaatriði sem krefjast svo mikillar grunnvallarþekkingar á þróun menningar, þróun tungumála og þekkingar að nauðsynlegt sé að fjalla um hana og leggja út af henni af mikilli varfærni. Það má ekki gleyma því hvaða hugmyndir menn höfðu t. d.um jörðina og sólkerfið þegar þeir í upphafi tóku að skrá ritningar.

Þegar annar prestur Neskirkju spurði mig að pallborðsumræðunum loknum, hvað mér þætti um nýju þýðinguna, svaraði ég því til að ég hefði lítið lesið í henni enn sem komið er, en ég reyndi að halda mig ofar deilunum til að forðast rykið.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.