Tangarínur í Peredelkino

Það var tvennt sem gerði liðna helgi ánægjulegri umfram margar aðrar. Í fyrsta lagi gróðursetning í skaplegu veðri á föstudagsmorgninum, veðri sem breyttist í úrhellisrigningu, nánast skýfall, sem entist út daginn og nóttina í sunnan og suðaustan stormi. Laugardagurinn, sem heilsaði snemma með einstakri blíðu, blíðu sem varði allan þann dag og sunnudaginn, óvænt. Þetta var í Litlatré.

Í öðru lagi viðtal Olgu Carlisle, við rússneska rithöfundinn Boris Pasternak, fyrir The Paris Review. Það var verulega ánægjuleg lesning og skemmtileg. Við þessir eldri, sem stundum lásu bækur, munum vel eftir meðferðinni sem Pasternak hlaut af hálfu sovétvaldsins, þegar hann var knúinn til að afþakka Nóbelsverðlaunin sem hann hlaut fyrir bókina Dr. Zhivago.

Olga þessi Carlisle heimsótti Pasternak í Peredelkino, skáldaþorp um 25 kílómetra suðaustur af Moskvu. Leigubílstjórinn sem ók henni, og þóttist rata reyndist alls ekki gera það og tók ferðalagið marga klukkutíma fyrir vikið, bæði langt og ruglað. Til baka til Moskvu tók hún lestina, litla rafknúna lest sem fór á milli á minna en klukkustund. „Það er sú sem Pasternak lýsir svo nákvæmlega í ljóðinu Early Trains:

„…And, worshipful, I humbly watch
Old pleasant women, Muscovites,
Plain artisans, plain laborers
Young students and suburbanites.

[…] “

Í viðtalinu kemur fram að þau ræddu rithöfunda og bækur sem þá voru efst á baugi um veröld víða. Andreyev, Gorki, Nietzsche, Kierkegaard, Dostoevski, Tolstoi, Evtuchenko, Gogol, Shakespeare, sem Pasternak hafði þýtt á rússnesku, Hemingway og Faulkner´s Light in August. Og marga, marga fleiri sem og tónlistarmenn og listmálara. Læt ég fylgja hér nokkrar línur úr viðtali Olgu:

„…It grew dark in the dining room and we moved to a little sitting room on the same floor where light was on. Pasternak brought me tangarines for dessert. I ate them with the strange feeling of something already experienced; tangarines appear in Pasternak´s work very often – in the beginning of Dr. Zhivago, in early poems. They seem to stand for a sort of ritual thirst-quenching.“

Við Ásta mín eyddum svo laugardeginum á pallinum framan við litla kofann okkar og undir kvöld þegar tók að rökkva breiddum við teppi yfir hnén, hlustuðum á snarkið í kjúklingi á grillinu og Tríó Guðmundar Ingólfssonar í bakgrunni. Nutum samverunnar í tali um bækur, höfunda og gróðuráætlanir. Það var stafalogn.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.