Þegar þögnin fær mál

Höfðum gert okkur vonir um að það stytti upp. Ekki er útlit fyrir að sú von rætist. Sóttum því regngallana niður í kompu og settum í farangurinn. Við áætlum að fara í sveitina eftir vinnu í dag til að gróðursetja 40 birkihríslur sem við pöntuðum í vor hjá Árna á Þorgautsstöðum. Höfum ágæta reynslu af haustgróðursetningum, eins og nefnt var hér, nema veðurþættinum.

Hríslurnar eiga að fara í Melinn. Á miðju sumri gerðum við holur fyrir þær. Nokkru síðar settum við hrossaskít í holurnar og loks gróðurmold. Vonum að aðhlynningin og undirbúningurinn nýtist plöntunum vel þegar þær, næsta vor, vakna til lífsins eftir vetrardvalann.

Það er hluti af gleðinni sem gróðurinn veitir þegar gengið er til hans á vorin að sjá nýja sprota brjóta sér leið út í birtu og yl. Heyra jafnframt í mófuglum sem komnir eru úr mikilli fjarlægð til að lífga tilveruna, í þúfu, runna og barði. Og það er þá sem eitthvað inni í sálu manns tekur undir, og „þögnin fær mál“, eins og Kristján Árnason, dósent, kemst að orði um ljóð Stefáns Harðar Grímssonar, í bók sinni Hið fagra er satt.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.