Regn og réttir

Þessir rigningadagar minna mig ævinlega á hljómplötu með Mahaliu Jackson. Hún var tekin upp á hljómleikum á New Port News hátíðinni fyrir meira en fjörutíu árum. Kynnirinn komst þannig að orði: „It is Sunday morning and it is rain.“ Mikill mannfjöldi var þarna samankominn til að hlusta. Mahalia Jackson gekk fram á sviðið, ábúðarmikil og full af orku og hóf sönginn með krafti með laginu Didn’t it rain. Hlustið hér

Á eftir fylgdi röð trúarlaga sem einmitt voru hennar einkenni sem blessuðu hjörtu miljóna hlustenda um víða veröld, áratugum saman. Söngur hennar var heillandi.

En nú er föstudagsmorgunn og það rignir. Sunnan og suðaustan. Rok og rigning eftir óvenjulega þurrt og blítt sumar. Þuríður, frænka Ástu, sem býr í Hvítársíðu sagði fyrir skömmu í tölvupósti: „Það er margt skrítið í veröldinni. Við erum búin að þrá rigningu í mest allt sumar og nú er hún mætt blessunin en við auðvitað farin að bíða eftir að hún hætti aftur. Hér rignir dag og nótt og nú hefur þokan bæst við.“

Það minnir á símtal við færeyska tengdadóttur fyrir nokkrum árum. Þá var rigningartíð. Ég spurði, eins og gengur, hvernig hún hefði það. „Fúínt, fúínt,“ sagði hún glaðlega, „það er svo færeyskt veður.“ Íslendingar hafa svo sem vissan skilning á veðrinu þar.

Samúð mín er samt með Íslenskum bændum þessa dagana. Þeir eru á fjalli, í göngum og leitum, að smala fé til byggða. Fátt er erfiðara en smölun sauðfjár í rigningu, þoku og roki. Og aldrei eru ærnar eins þungar á höndum eins og þegar rignt hefur í marga daga. Gegnblautar, þunglyndar og þverar. Þá myndast og leðja í almenningnum sem enn eykur á puðið við dráttinn.

Ég á minningar um þetta frá fyrri árum. Örþreyttur og gegnblautur með hárið klesst niður andlitið. Regnvatnið hripandi niður hálsmálið, niður á bak og brjóst. Leðjan og skíturinn þekjandi fólk frá toppi til táar. Hendurnar klístraðar og ekki hægt að strjúka bleytuna framan úr sér.

Við stefnum samt í sveitina síðdegis í dag. Áætlum að vera í Nesmelsrétt á morgun. Þverárrétt þann sautjánda. Tökum með okkur regngalla þó hlutskipti okkar sé aðallega að þvælast ekki fyrir.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.