Spor eftir tófu

Sá í sjónvarpi nýlega að kona nokkur hafði komið á kosningu á heimasíðu sinni um fegursta íslenska orðið. Í fréttinni voru síðan nefnd dæmi, líklega þau tíu sem flest atkvæði höfðu fengið. Í huga minn komu strax tvö orð sem ekki voru á listanum, að ég tæki eftir þeim, en það eru orðin ástúð og alúð. Ást-úð og al-úð. Ég er hrifinn af þeim. Þau hljóma vel og fela í sér fallega merkingu. Þau fá mitt atkvæði.

Við höfum nú verið í sveitinni í sautján daga, gömlu hjónin. Það er vindur af norðri, 5-7 m/s, skýjað og hiti +13°C. Síðastliðinn fimmtudag rigndi hér í fyrsta sinn síðan í maí. Þurrkurinn var farinn að minna á frásöguna af Elía. Allir töluðu um þurrkinn og gróðurinn lét á sjá. Vætan var því langþráð. Hún var mild og hlý.

En dagarnir í júní og júlí fram að því hafa verið eins og þessir sem fólk kaupir aðgang að í sólarlöndum. Fyrir stórfé. Margir á Visa raðgreiðslum. Hitinn komst hæst í +25°C í forsælu. Það er ekkert sérlega þægilegt dag eftir dag eftir dag og oft í logni. Þessvegna er afskaplega notalegt að horfa á gróðurinn breiða úr laufi og limi og teiga í sig rakann sem mest mældist 96%. Það var í gærmorgun.

Ásta lagði því til að ég reyndi að skrifa pistil, einskonar kveðju frá okkur í sveitinni, og vera ekki alltaf að væla um hvað Blátannartengingin er rándýr. En hún er vissulega rándýr. Ég reyndi það í fyrra. Hef ekki enn náð mér alveg eftir reikninginn sem ég fékk þá. En af því að allt er svo gott í dag og gróðurinn svo ánægður með lífið eins og Ásta er ánægð með lífið, þá slæ ég til.

Einn daginn ókum við um Snæfellsnes. Rangsælis. Þar var margt fallegt að sjá. Seinna fórum við í afmæli Hönnu Ágústsdóttur vestur í Búðardal. Það var mjög skemmtilegt. Þar hittum Gústa og Siggu, Óla jr. og Heiðrúnu, Gunný og Binna og Ráðsu og Sigurstein. Eitt skiptið sátum við hjá Gumma í Hlöðutúni og rifjuðum upp eitt og annað.

Annars hafa dagarnir einkennst af gróðursetningu og smíðavinnu. Gróðursettum bakkaplöntur, elri, aspir, furur. Hjartað í manni syngur við slík störf, „I love you because…“ eins og Ray Charles, og fagnar hverju dagsverki og laumast til að herma eftir Guði við verklok og segja: „…og sjá, það var harla gott.“

Svo hafa líka verið dagar þar sem við lágum í bókum. Bækur eru hluti af lífi okkar. Þær geta verið grípandi og skemmtilegar og tekið mann tökum. Slíkar leggur maður ekki frá sér fyrr en að þeim loknum. Ásta var að ljúka við Þrettándu söguna, 430 blaðsíður. Sjálfur ætlaði ég aldrei að hætta að hlægja að kaflanum um Áka og Fanney í rúminu á Kálfastöðum. Las einnig hetjusöguna um Kristófer Boone. Fann fyrir sársauka og meðlíðan á hverri síðu. En hér eru líka Marquez og Mann, Þorsteinn Gylfason og Hemingway. Það er ekki hægt að búa við meiri allsnægtir. Trúið mér.

Í morgun voru spor eftir tófu á pallinum við húsið. Kannski skýrir það hvað fuglalífið í móanum er fátæklegra en áður.

2 svör við “Spor eftir tófu”

  1. Nánari rannsóknir á sporunum bentu fremur til minkaspora.
    Byggðist sú niðurstaða á slóð dýrsins upp á grillið.

  2. Takk fyrir það og kær kveðja í Borgarfjörðinn.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.