Þetta má nú öllum gera

Það fréttist fyrir tveim árum eða svo, að einn sonanna hefði fjárfest í harmonikku. Sá heitir Ágúst og er kennari í Norðlingaskóla. Þegar fjölskyldurnar hittust og harmonikkuleik Ágústs bar á góma tók sá gamli, þ.e. pabbinn, að guma af eigin harmonikkuleik á yngri árum.

Gerðist þetta í nokkur skipti og þegar nýlegur fjölskyldumeðlimur, Friðrik, maki Stefaníu Hrannar bættist í hópinn, kom í ljós að einnig hann hafði fjárfest í harmonikku. Gat nú sá gamli manað þessa tvo til að koma saman og spila fyrir sig en báðir báðust þeir undan þeirri áskorun.

Ágúst og Sigríður fylgjast með

Ágúst og Sigríður fylgjast með…

Færðist þá sá gamli allur í aukana og sagði frá því þegar hann lék á harmonikku á dansæfingum í bændaskólanum á Hvanneyri fyrir liðlega hálfri öld við allgóðan orðstír. Það væri nú ekki mikið mál að spila á harmonikku. Þetta gætu allir.

Heiðrún, Hanna og Óli yngri
…Heiðrún, Hanna og Óli yngri einnig

„Ekki vantar nú hógværðina,“ læddi Jón Gils út úr sér í einu fjölskylduboðinu, ákveðinn í hleypa gamla manninum ekki fram fyrir yngri kynslóðina. Og gerðu menn góðan róm að orðum hans. Í þessu boði var svo til allur klasinn, 30 til 40 manns.

Feðgarnir Ágúst og Óli

Það var svo í gærkvöldi að Ágúst og fjölskylda hans komu til okkar Ástu í kvöldmat, þennan vinsæla „Afakarríkjúkling“ og „Balti svít and súr“ að Ágúst kom með harmonikkuna með sér, sposkur á svipinn. Svo var borðað og allt fór vel og eftir ábætinn sagði gaurinn: „Jæja pabbi, nú spilar þú fyrir okkur lögin frá því í gamla daga.“

Þetta má nú öllum gera

„Þetta má nú öllum gera,“ hugsaði ég. Man varla hvaða lög þetta voru. Þegar svo kom að skilnaðarstund kvaddi Ágúst mig með kossi og þessum ljúfu orðum: „Ég skil nikkuna eftir hjá þér, pabbi minn, þér veitir ekki af að æfa svolítið.“

Húsfreyjan Ásta tók myndirnar

4 svör við “Þetta má nú öllum gera”

  1. Þetta finnst mér alveg frábært. Óli vinur minn góður harmonikkuleikari, það vissi ég alls ekki. Ég vissi að hann gæti mjög margt og auðvitað væri þetta föndur hans á sínum tíma að spila á harmonikku ekkert merkilegra enn allt það sem hann gerði og allir hafa talað um. Minn kæri vin Óli Ágústsson er maður verka og æðis og kemur hverki tómur að kofanum. Ég vildi að ég ætti einhvern tíma möguleika á að spila með honum á harmonikku.

  2. Skemmtileg tilviljun, því sjálfur er ég nýbúinn að þurrka rykið af minni nikku. Það ryk var þó aðeins um ársgamalt.

    Ljómandi góðar myndir líka. Einbeitni leikarans og áhugi viðstaddra leynir sér ekki.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.