Vetur fer – sumar kemur, vonandi

Síðasti vetrardagur. Hljómar vel. Sumardagurinn fyrsti. Hljómar betur. Fjöllin þó enn klædd hvítu. Heitum á sólina að ylja svo gil og skorninga að fönnin víki bráðlega og grænar tungur nái hærra upp í hlíðar en í fyrra.

Við stefnum til fjalla síðdegis, konan sem kyndir hjarta mitt og ég, hvar við tökum til við klippingu á alaskavíði og ösp og setjum í vatn, á sumardaginn fyrsta eftir almanaki.

Óskum öllum vinum okkar gleðilegs sumars og þökkum fyrir samskiptin á vetrinum. Líka þeim sem ákváðu að skipta sér ekki nokkurn skapaðan hlut af okkur. Hinum þó miklu fremur sem létu eftir okkur að vita af sér, með því að snerta okkur með hendi eða kossi eða símtali eða heimsókn á heimasíðuna.

Maður verður svo þakklátur öllu sem lifir þegar suðan á kjötsúpunni er að koma upp, súpunni sem verður „vetrarkveðjumáltíðin“ okkar. Seinna í kvöld. Í sveitinni. Segi eins og maðurinn, nema það hafi verið konan: Vonandi verður þetta snjólétt sumar.

Myndin er frá því í fyrrasumar. Hríslan við hlið Ástu er kölluð Litlatré. Hún var eiginlega eina hríslan á lóðinni þegar við mættum þar fyrst. Kofinn okkar tók nafn af henni. Smellið á myndina.

Gleðilegt sumar.

7 svör við “Vetur fer – sumar kemur, vonandi”

  1. Gleðilegt sumar sömuleiðis og takk fyrir veturinn. Kveðja Kiddi og Harpa

  2. Gleðilegt sumar. Mínus átta kl 6 í morgunn boðar væntanlega frábært sumar. Kveðja Steindór Óli

  3. Gleðilegt sumar og þökk fyrir veturinn og innlitið hjá mér og fyrir heimasíðuna, vonandi fáið þið gott sumar í Litlatré. Kær kveðja.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.