Kyrrlátur morgunn

Á laugardag skenkti veðrið skaplegri brigðum. Kyrrð var yfir uppsveitum Borgarfjarðar, logn, úrkomulaust og umferð svo til engin. Eftir klukkustundar göngu fórum við Ásta mín í skoðunarferð bílandi, eina af þessum sem við förum í oft á ári og rifjum upp gróður, gil og gersemar sem við dvöldum við á æskuárunum.

Ein og önnur minning rifjast upp frá þeim dögum. Það var þegar framtíðin virtist óendanleg. Og hönd læðist í hönd. Ekið er á hægu tölti, ef svo má segja, og stansað við þau lífsmörk sem á veginum verða. Fyrst hittum við fyrir holdagripi Páls á Signýjarstöðum, sem biðu eftir tadda dagsins.

Við Stóra-Ás komu fáeinir hestar á móts við okkur og virtust svo sem ekkert sérstaklega upprifnir yfir myndatökunni en létu sig hafa það að stilla upp.

Á Þorvaldsstöðum voru ærnar niðursokknar við að háma í sig hey sem bóndi þeirra hafði rétt lokið við að dreifa á jörðina utan við húsin. Þær litu ekki einu sinni í áttina til okkar.

Og á bakaleið undir Skógarhlíðinni í Gilsbakkalandi, skammt þar frá sem vegslóðinn fram á Blettina hefst, mættum við fríðum hópi húsmæðra úr sveitinni sem komið höfðu saman til þess að ganga og njóta samveru. Voru þær hinar vígalegustu, klæddar göngufatnaði, gönguskóm og með stafi í höndum. Við stönsuðum og tókum þær tali. Þær voru hressar og glaðbeittar og geislaði af þeim lífsþrótturinn. Ánægjulegt var að skiptast örlítið á orðum og fengum við að taka mynd af hópnum til minningar.

Á myndinni eru, talið frá vinstri: Ingibjörg Daníelsdóttir, Fróðastöðum, Þuríður Ketilsdóttir, Þorgautsstöðum, Ragnheiður Kristófersdóttir, Gilsbakka, Agnes Guðmundsdóttir, Síðumúlaveggjum og dóttir hennar, sem við því miður gripum ekki nafnið á.

Vænt þætti mér um, ef einhver kunnugur fólkinu vildi vera svo örlátur að upplýsa mig um nafn stúlkunnar frá Síðumúlaveggjum í athugasemdareitinn hér fyrir neðan.

3 svör við “Kyrrlátur morgunn”

  1. Sæll og blessaður Óli.
    Var að lesa þessa skemmtilegu lýsingu á laugardeginum hjá ykkur frá Litla-Tré.
    Það er rétt að unga stúlkan er Fanney Guðjónsdóttir.
    Bestu kveðjur til Ástu.
    Bryndís.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.