Það styttist í kosningar

Stóra breytingin á austurlandi er sú að nú hafa allir atvinnu. Nú á fólk fyrir mat og fötum og menntun barnanna sinna. Einnig híbýlum. Það er mikil blessun fyrir venjulegt fólk að hafa atvinnu og eiga fyrir nauðsynjum. Þessu breytti ákvörðun um Kárahnjúkavirkjun og álver á Reyðarfirði. Ég man aldrei til þess, hversu hátt sem áhugafólk um mótmæli hrópar á móti virkjunum, að fram kæmu- komi nothæfar tillögur í atvinnu- og afkomumálum austfirðinga.

Lítum til vestfjarða. Breytingin þar um þessar mundir er sú að þar vantar atvinnu fyrir fjölda fólks. Ástæður eru margar og alkunnar. Engir af þessum sjálfkjörnu „grænu öðrumegin, grænu báðumegin eða grænu í gegn –fylkingum“, hafa marserað um stræti til þess að krefjast umbóta fyrir fólkið þar. Það var heldur ekki gert fyrir austfirðinga. Það er eins og öllum sé nokkurn veginn sama um afkomu fólksins sem býr á rýrari svæðunum.

Ég er af gömlum skóla. Svo gömlum að ég þekki vel hvað það er að hafa ekki atvinnu. Hvað það er að vera barn í fátækri fjölskyldu sem varð að neita sér um mörg tækifæri sem aðrir fengu, vegna fátæktar. Hvað það er að eiga ekki fyrir nauðþurftum hvað þá þeim sjálfsögðu atriðum sem gera foreldrum kleyft að hlynna svo að börnum sínum að þau nái að þroska sína bestu hæfileika. Svo gamaldags er minn skóli. Og reykvískur.

Mér virðist að flestir þeir sem hamast hvað mest núna og ætla sér vegtyllur og frama í nafni ástar á umhverfi, séu einstaklingar sem hafa nóg af öllu. Allt af öllu. Menntun, föstu starfi, föstum launum og þeim ávinningi og lífsgæðum sem þau tryggja þeim. Og þegar þeir / þau fara fram án þess að hafa fólk / samtíðarfólk (ekki bara útsýnisferðir barna framtíðarinnar) efst og fremst á baráttulista sínum, þá er hljómur þeirra holur.

Það styttist í kosningar til Alþingis. Karlar eins og ég hlustum á alla þá barka sem blása í raddböndin um eigið ágæti um þessar mundir. Við metum tóninn, hvort finnist þar nokkur hreinn. Metum hann með margra áratuga reynslu af loforðum, fagurgala og skrumi frambjóðenda, sem oftar reyndist orðin tóm.

Við hlustum fyrir fólkið sem haft er útundan, útigangsmennina sextíu sem þúsund milljarða veltan nær ekki að veita húsaskjól. Fátæka fólkið sem á ekki fyrir mat síðustu viku hvers mánaðar. Eldri borgarana sem hegnt er fyrir það að hafa gefið æviorku sína til að byggja upp það líf sem samtíðin gleður sig við í dag. Við hlustum fyrir fólk sem haft er útundan og setjum atkvæði okkar með hagsmunum þess.

Eitt andsvar við „Það styttist í kosningar“

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.