Helgi og Hannes – kökkurinn

Það er bekkur úti í Örfirisey skammt frá Seglagerðinni Ægi. Hann er norðan við götuna. Þar hefur umhverfið verið lagað til, bílastæði gert og göngustígur. Þaðan er útsýni yfir sundin og eyjar, og Esjan skreytir bakgrunninn. Eldrautt tankskip liggur við olíubryggjuna. Fiskibátur stímir að landi. Gámaskip hverfur bak við Engey á leið í höfn. Hannes situr á bekknum. Helgi kemur að og horfir út á sjóinn. Hann er móður.

Helgi: Ég ætlaði aldrei að finna þig.
Hannes: Nú?
Helgi: Já. Nei.
Hannes: Jæja?
Helgi: Já. Ég fór á alla staðina.
Hannes: Hélt ég slyppi hér.
Helgi: Slyppir?
Hannes: Já.
Helgi: Af hverju vildir þú sleppa?
Hannes: Það er ástæða fyrir því.

Löng þögn. Einn og einn bíll kom og sneri á endastöðinni.

Helgi: Viltu ræða það?
Hannes: Varla.
Helgi: Erum við ekki vanir að ræða málin?
Hannes: Það geta nú komið dagar.
Helgi: Dagar. Hvernig dagar. Hvað áttu við?
Hannes: Að maður vill ekki spjalla.
Helgi: Það er sjaldgæft.
Hannes: Víst er það.
Helgi: Þú ræður.

Stór jeppabifreið á svakalegum dekkjum kom dragandi stærstu gerð af fellhýsi og stansaði í grennd við Seglagerðina. Hannes horfði niður á skóna sína.

Hannes: Ég er með hnút.
Helgi: Ertu með hnút?
Hannes: Já. Inni í mér.
Helgi: Hvernig hnút?
Hannes: Kökk. Harðan. Upp í háls.
Helgi: Alveg upp í háls. Hvernig fékkstu hann?
Hannes: Það var á laugardaginn. Í miðbænum.
Helgi: Nú já?
Hannes: Ég var að koma úr boði og labbaði heim. Dálítið mjúkur. Það var fullt af fólki á gangi. Allt í einu sá ég hann. Manninn. Ég vissi að ég þekkti hann. Vaxtarlagið, göngulagið, frakkann, húfuna og allt. Og ákvað að hitta hann. Tók á rás á eftir honum. Það var margt fólk. Ég óttaðist að tapa af honum. Jók hraðan. Það var fjöldi á Lækjartorgi. Þegar maðurinn fór í gegnum sundið hjá Optik, út í Hafnarstræti, hljóp ég og náði honum við portið hjá gömlu löggustöðinni. Og greip í öxlina á honum.
Helgi: Greipstu í öxlina á honum?
Hannes: Já.
Helgi: Hvað svo?
Hannes: Hann snéri sér við og leit á mig.
Helgi: Og leit á þig. Og hvað?
Hannes: Þá sá ég það.
Helgi: Sástu. Hvað sástu?
Hannes: Sjálfan mig.

Eitt andsvar við „Helgi og Hannes – kökkurinn“

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.