Svo yndisleg orð

Stundum, við lestur bóka, grípur ein setning mann slíkum tökum að ekki er hjá því komist að lesa hana aftur, já og aftur, leyfa henni að síga inn í vitundarrýmið og fara um hugann eins og svalandi drykkur um heitan líkama. Og svo verður maður að rísa á fætur og ganga um, stansa við glugga og horfa út án þess að sjá út og finna setninguna aftur og aftur hafa sjálfa sig yfir.

Ég var að opna bókina, Frá sál til sálar, um ævi og verk Guðmundar Finnbogasonar sálfræðings. Svona bók nálgast maður með flauelsmjúkri aðdáun, frelsar hana úr glæru plastinu – sem minnir á Glerhjálm Sylviu Plath – og strýkur hana utan með flötum lófa, býður hana velkomna í fjölskylduna og brosir „einskonar brosi“ eins og ástarsaga Franqoise Sagan segir frá. Og hugsar fallega til mannsins sem gaf bókina í jólagjöf.

Svo opnaði ég bókina, hún er eftir Jörgen L. Pind, og las efnisyfirlitið sem skiptir bókinni í sjö aðalkafla og byrjaði á innganginum. Fyrstu fjórtán línurnar fylltu mig strax af gleði, áhrifum sem sum orð veita öðrum fremur og hvergi finnst nema í orðum. Helst hefði ég viljað birta þessar fjórtán línur, en þori það ekki þar sem ég hef ekki „skriflegt leyfi höfundar og útgefanda“.

En þarna segir frá því þegar ungur Íslendingur, Andri Ísaksson, mætti í munnlegt próf í sálfræði barna – og unglinga við Parísarháskóla, Sorbonne, hjá heimskunnum sálfræðingi að nafni Jean Piaget. Piaget hóf prófið með því að spyrja Andra frá hvaða landi hann sé og þegar hann hafði svarað því og sálfræðingurinn hugsað sig um litla stund bætti hann við: „Connaissez – vous Finnbogason – þekkið þér Finnbogason?“

Svo vel vildi til að Andri þekkti nokkuð til verka Guðmundar og gat sagt að hann hefði skrifað doktorsritgerð um það sem hann hefði nefnt samúðarskilning á íslensku en samúðargreind, L`intelligence sympathique, á frönsku.

Það voru einmitt þessi tvö orð sem tóku mig við upphaf lestursins: Samúðarskilningur, samúðargreind. Þau falla svo vel að hugsun minni og skilningi á guðspjöllum Heilagrar ritningar og orðum og starfi meistarans mikla frá Nasaret, orðum, sem einkenndust af elsku og samúð með fólki sem þarfnaðist elsku og samúðar, og eru efni í ótal fyrirlestra og ævistarf margra.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.