Fátækt fólk – fátæk börn

Hann tók að ræða við mig um stjórnmál. Ég fór strax í vörn. Reyni alltaf að komast hjá því að taka þátt í slíkum umræðum. Þessi gaf sig ekki. Hann þvaðraði út og suður um árangur ríkisstjórnarinnar, hvað hann væri dásamlegur. Ég hlustaði. Lagði ekkert til málanna lengi vel. Fann þó að púlsinn tók þátt. Þar kom að ég stóðst ekki mátið.

„Þú nefnir ekki fátæka fólkið,“ sagði ég.
„Fátæka fólkið. Hvaða fátæka fólk?“
„Ungar einstæðar mæður, til dæmis,“ bætti ég við.
„Ungar einstæðar mæður?“ sagði hann með niðrandi tóni.
„Já, sem eiga ekki fyrir mat síðustu viku hvers mánaðar.“
„Þær geta sjálfum sér um kennt,“ sagði hann.
„Hvernig þá?“
„Að hafa látið barna sig.“
„Endurtaktu þetta.“
„Já, ég meina það. Fólk á að hafa stjórn á hlutunum.“
„Fólk er nú misvel útbúið af náttúrunnar hendi,“ lagði ég til málanna.
„Þetta er eintóm linkind og agaleysi,“ sagði hann og sjálfsánægjan draup af honum.

„Margt ungt fólk er börn vanbúinna foreldra,“ sagði ég.
„Það er sjálfsagt rétt,“ tók hann undir við mig.
„Foreldra sem ekki höfðu atgervi til að fullmóta börnin sín.“
„Það er auðvitað til í því,“ sagði hann.
„Og þá kemur aldrei í ljós hvað í börnunum býr,“ bætti ég við.
„Það má segja það,“ svaraði hann.
„Hvers eiga þau þá að gjalda. Á ekki löggjafinn að sjá um
að þau fái tækifæri?“
„Það getur vel verið,“ sagði hann, „en verða þetta ekki
alltaf ómagar, sama hvað fyrir þau er gert?“
„Það kemur ekki í ljós ef þau fá aldrei tækifæri.“
„Kannski ekki. Kannski ekki,“ sagði hann.

„Er ekki skylda þeirra sem fara með yfirstjórn þjóðmála
að sjá svo um að allir þegnar fái sömu tækifæri til að
þroskast og njóta sín,“ spurði ég enn.
„Það virðist nú svo sem sanngjarnt,“ sagði hann.
„Það gerir þessi ríkisstjórn ekki,“ sagði ég og tók hatt
minn og staf.
„Ertu að hugsa um að kjósa hina kannski?“ spurði hann ljúfmannlega.
„Heldur þú að þeir gerðu betur?“ spurði ég og setti hattinn upp.
„Nei. Það held ég ekki,“ svaraði hann.
„Ekki ég heldur.

2 svör við “Fátækt fólk – fátæk börn”

  1. Systir Gunnbjörg!
    Mig minnir að á okkar heimili hafi hugtakið kommúnisti verið flokkað með blótsyrðum. Það á ekki að blóta á aðventunni.
    Mikill munur er á hugtökunum kommúnisti og jafnaðarmaður. Ef þú vilt flokka viðhorf mín þá máttu kalla mig hægri krata. Bíð spenntur með x-ið mitt eftir kosningunum í vor.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.