Helgi og Hannes – stjórnmál

Hannes sat á bekknum fyrir framan ávaxtabúðina. Einum af þeim fimm stöðum þar sem þeir hittust oftast. Hann lokaði dagblaði þegar Helga bar að. Braut það saman og lagði það ofan á önnur dagblöð sem lágu á hnjám hans. Helgi fylgdist með hreyfingum Hannesar og undraði sig á glettnum andlitssvip hans.

Helgi: Það rignir.
Hannes: Heldur betur.
Helgi: Þetta er árstíminn.
Hannes: Láttu okkur þekkja það.
Helgi: Og þú brosir?
Hannes: Já.
Helgi: Eru þetta blöðin í dag?
Hannes: Nei. Fyrradag.
Helgi: Er eitthvað í þeim?

Hannes fær einlæga hláturskviðu. Hóstar einu sinni eða tvisvar. Ræskir sig.

Hannes: Stjórnmálamenn.
Helgi: Það er nú varla nýtt.
Hannes: Nei.
Helgi: En hvað er fyndið?
Hannes: Þeir.
Helgi: Þeir hverjir?
Hannes: Stjórnmálamennirnir.
Helgi: Ekki þó allir?
Hannes: Það er rétt.
Helgi: Þú hlærð ekki oft.
Hannes: Nei.
Helgi: Og hvað fær þig til hlægja núna?
Hannes: Einn gaurinn.
Helgi: Hann hlýtur að vera sérstakur?
Hannes: Já. Hann er það.
Helgi: Hvað er svona fyndið við hann?
Hannes: Ég ræð ekkert mig. Fer alltaf að hlægja þegar ég les greinarnar hans.
Helgi: Um hvað fjalla þær?
Hannes: Gagnrýni á fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar.
Helgi: Er það ekki taktur andstöðunnar? Að níða hina?
Hannes: Þessi virðist treysta því að fólk hafi gleymt fjármálaafrekum hans sjálfs í borginni.
Helgi: Þú ert að tala um nafna minn?

Þeir fylgdust báðir með seinfærri umferðinni og glottu.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.