Helgi og Hannes – tveir menn og annar í ham

Helgi hafði setið lengi á bekknum. Hann var farinn að undrast um Hannes sem ævinlega mætti á undan honum. Það lá vel á Helga þar sem hætt var að rigna og sólin tekin að skína. Hann hafði farið úr síðum ullarfrakkanum sínum, sem var fremur sjaldgæft, og lagt hann við hlið sér á bekkinn. Hann sat þarna afslappaður í ullarpeysu og naut tilverunnar.

Eftir dágóða stund sá hann Hannes birtast, ábúðarmikinn, með uppbrettan kraga og einskonar lambhúshettu á höfðinu. Helga varð starsýnt á félaga sinn og þóttist skynja aðdraganda tíðinda. Hannes stansaði spölkorn frá bekknum og lagði frá sér pokatadda.

Helgi: Ætlar þú ekki að setjast?
Hannes: Nei.
Helgi: Hvað veldur?
Hannes: Ég er í ham.
Helgi: Ertu í ham?
Hannes: Já. Ég er í ham.
Helgi: Hvað veldur?
Hannes: Var að lesa blöðin.
Helgi: Það gera nú fleiri.
Hannes: Það er þetta með Bretland.
Helgi: Hvað er með Bretland?
Hannes: Mesti launamunur í heimi.
Helgi: Launamunur?
Hannes: Já, og misskipting.
Helgi: Skiptir það okur máli?
Hannes: Mig. Mjög.

Helgi horfði nokkra stund á félaga sinn sem nú beygði sig niður, tók pokataddann upp og bjóst til að fara.

Helgi: Ertu farinn?
Hannes: Já.
Helgi: Og hvert ertu að fara?
Hannes: Upp á Laufásveg.
Helgi: Laufásveg. Hvað er þar?
Hannes: Enska sendiráðið.
Helgi: Hvað viltu með það?
Hannes: Mótmæla.
Helgi: Mótmæla hverju?
Hannes: Misréttinu í Bretlandi.
Helgi: Og hver heldur þú að hlusti á þig?
Hannes: Við sjáum nú til.

Hannes gekk af stað. Helgi kallaði á eftir honum.

Helgi: Hvað ertu með í pokanum?
Hannes: Keðju.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.