Mikil hræsni

Í Fréttablaðinu í morgun birtist lítill pistill undir heitinu Mikil hræsni. Efni greinarinnar er sprottið af umræðunni um kröfuna um líflátsdóm yfir Saddam Hussein. Blaðið leitar eftir skoðun eins þeirra afbrigðilegu einstaklinga sem að telja sér trú um að þeir séu Guði þóknanlegri en aðrir menn og orð þeirra og viðhorf þess vegna því sem næst opinberun beint frá Guði komin.

Upp í hugann kemur, við lestur á fyrrnefndum pistli, hvað mönnum er mikill vandi á höndum við skoðanamyndun í hinum ýmsu málum. Þegar spurt er um viðhorf eins til þess hvort lífláta skuli mann fyrir afbrot sem hann hefur framið, sýndist eðlilegt að sá sem spurður er byrjaði á því að skoða sjálfan sig, til að kanna hvort hann sé þess umkominn að dæma lífið af öðrum manni. Og í framhaldi af því verður hann, nema hann sé hræsnari, að spyrja sjálfan sig þriggja spurninga. Hið minnsta.

Sú fyrsta er hvort hann ætli að fella dóminn eftir eigin geðþótta. Önnur, hvort hann ætli að styðjast við lagasafn þjóðar sinnar og refsiramma þess, og sú þriðja, hvort hann telji sig kristin mann og vilji því leitast við að byggja viðhorf sitt á ritningunum. En það er mikill vandi að sækja viðhorf til ritninganna og í þeim garði ber mönnum að stíga varlega til jarðar.

Þegar Guð talaði við Móse, hátt uppi í fjalli, gaf hann Móse tíu boðorð sem grundvallarreglur fyrir þjóðina að taka mið af. Tökum dæmi: Eitt þeirra segir: „Þú skalt ekki morð fremja.“ Nokkru síðar segir: „Og ljósti einhver mann til bana, skal hann líflátinn verða.“ Og enn síðar er hnykkt á þessu: „Líf fyrir líf, auga fyrir auga, tönn fyrir tönn, hönd fyrir hönd, fót fyrir fót.“

Þessi ritningarorð um dauðarefsingu fyrir að deyða mann, geta hljómað mótsagnakenndar og kallað á vangaveltur. Eins og til dæmis þessar: Er hægt að refsa manni með því að lífláta hann án þess að verða sekur við boðorðið um að ekki skuli mann deyða? Og ef það er hægt að refsa manni fyrir að refsa manni með lífláti, hvar endar það?

Orð Mósebókanna um glæpi og refsingar eru mögnuð. Þau eru svo mögnuð að nútímafólki hlýtur að svelgjast á, aftur og aftur, við lesturinn. Einkennið á þeim er í megindráttum þetta: „Þeir skulu líflátnir verða“, „Hana skal brenna í eldi“, „Skulu þá allir borgarmenn lemja hann grjóti til bana“ „…þá skulu þau bæði deyja“. Og það raunalegasta við öll þessi ákvæði er að þau eru öll sögð komin beint frá Guði.

Boðskapur Jesú Krists er einnig sagður beint frá Guði. Sá boðskapur hafði þó allt annað innihald og allt annað markmið. Hvar sem hann fór ilmuðu orð hans af kærleika, miskunnsemi og náð. „Ég er sendur til að græða sár,“ sagði hann og „Ég er kominn til þess að þeir hafi líf […]“.

Þegar svo þessi viðhorf tvö, Móse og Krists, eru látin mætast í helgidóminum, þar sem farísearnir, gaddavírar samtíðar Jesú, komu með seka konu og kröfðust dauðarefsingar yfir henni, benti Jesús þeim á að eðlilegt væri að þeir litu í eigin barm, hvort þeir væru syndlausir sjálfir. Þá flúðu þeir af hólmi. En Jesús talaði til þeirra og sagði: „Þér dæmið að hætti manna. Ég dæmi engan.“

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.