Hvað sástu?

Alla daga. Margar vikur. Kalt vor. Norðaustan fimm til tíu eða átta til þrettán. Og frost á nóttum. Kom í hús eftir skoðunarferð um nágrennið. Fór snemma. Læddist, svo að betri hlutinn gæti lúrt lengur. Var spurður við heimkomu: „Vissi ekki að þú fórst. Hvað sástu?“

„Ég sá lóupar á melnum þar sem sinan er mest. Austur við barðið. Karlinn virtist reyna við frúna. Frúin varðist. Gæsapar á varðbergi þar sem móinn og melurinn mætast. Með teygða hálsana. Hrafn skanna móana og árbakkann. Mófugla stríða og steypa sér yfir hrafninn. Og tjald. Spóa spígspora með langa bogna nefið við troðninginn. Álftir í loftinu. Álftir á túni.

Hrossahóp handan við ána dreifa sér eftir næturstað. Sandlóu flýja hlaupandi með hausinn niður við jörðina. Þrastapar spjalla á girðingu. Gauk gelta í grenndinni. Tvo kjóa steypa sér í stórum sveig niður undir þúfutoppana og þjóta upp að nýju. Fáeinar lambær í lág með lömbin þétt upp við sig. Sámsstaðabændur aka rúllubagga heim í fjárhús. Og Hvítá. Bláan kuldann í straumröstinni. Þetta sá ég.“

„Er þér ekki kalt?“
„Ah. Ekki svo.“
„Leggstu hjá mér og fáðu yl í þig.“

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.