Ótrúlegir alþingismenn

Á meðan lotan um vatnalögin stóð yfir á alþingi kom orðið sirkus aftur og aftur upp í hugann. Íslensk orðabók skýrir orðið sirkus með; fjölleikahús. Þegar flett er upp á fjölleikum segir orðabókin; ýmiskonar skemmtiatriði ætluð til sýningar, loftfimleikar, töfrabrögð, tamin dýr látin sýna listir sínar.

Stundum í síðdegishléi kveiki ég á sjónvarpinu og fylgist með þessu þjóðkjörna fólki sem á alþingi situr og tjáir sig um hin ýmsu mál sem á dagskrá eru. Alltaf verð ég jafn undrandi og hissa. Hugsa gjarnan til baka til hina ýmsu vinnustaða sem ég starfaði á um ævina. Þeir voru ekki margir sem hefðu liðið aðra eins þykjustuleiki né þolað þá með afkomu í huga. Og þessvegna fækkað í liðinu um helming. Hiklaust. Afköstin hefðu ekki minnkað við það.

Áður hef ég stungið upp á því að þingmönnum yrði fækkað um helming. Það var þegar eftirlaunakjör þeirra voru hækkuð sem mest um árið. Þá hefði verið snjallt að fækka þeim til að auka ekki kostnaðinn við rekstur þeirra sem er óþarflega hár hjá lítilli þjóð. Fæ ekki séð að landsmenn yrðu lakar settir þótt færri ynnu við skvaldrið. Og fleira kemur í hugann við áhorfið.

Margar hrifningarstunur hafa heyrst frá því að lagt var til að byggt yrði svokallað hátæknisjúkrahús. Það sem undrun vekur í því samhengi er, að á sama tíma og ekki er hægt að reka og fullnýta þau sjúkrahús sem þegar eru til, vegna fjárskorts, skuli gerð áætlun um að eyða hundrað milljörðum í byggingu nýs sjúkrahúss. Hvernig tekst mönnum að reka það þegar minni verkefni reynast þeim ofviða.

Nýjasta dæmið um stjórnunarhandvömm er vöntun á hágæsludeild, fyrir nýja barnaspítalann, sem kostaði líf ungbarns á „mílu göngu“ milli deilda. Hágæsludeild sem er ekki einu sinni á forgangslista stjórnenda, vegna „kostnaðar“. Eitthvað verður vandinn tröllvaxinn í nýju hátæknisjúkrahúsi ef að líkum lætur.

Svo sér maður þingmann standa keikan frammi fyrir sjónvarpvélum, horfa beint í linsuna og leggja til að þeim efnaðri verði gert kleift að kaupa sig fram fyrir í biðröðinni eftir þjónustu á sjúkrahúsum!
Hvað ætli „dauðamílan“ verði þá löng fyrir fátæku foreldrana?

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.