Það sem múslímir virðast ekki skilja

Flokkur manna kom til að handtaka Krist. Þeir sem gættu hans hæddu hann og börðu og svívirtu. Skarinn ákærði hann. Æðstu prestar og fræðimenn ákærðu hann. Heródes óvirti hann og spottaði. Æðstu prestarnir, höfðingjarnir og fólkið æptu: „Burt með hann, […] krossfestu, krossfestu hann.“ Hermennirnir hæddu hann, báru honum edik að drekka, settu þyrnikórónu á höfuð honum, hræktu á hann og slógu hann í höfuðið með reyrsprota og negldu hann upp á kross til aftöku.

Í dag lúta auðmjúkir og krjúpa, úthella sál sinni og ákalla við fætur þessa mikla meistara frá Nasaret, sem þrátt fyrir níð og háð í gegnum tvöþúsund ár lifir í himninum og mun lifa í eilífum anda föðurins sem þar býr. Ekkert sem menn hafa gert til að draga úr stórleika hans hefur kastað rýrð á persónu hans og guðdóm og þannig mun það verða á meðan mannkyn gengur um á jörðinni.

Einhvern veginn fær maður á tilfinninguna að Múhameð þeirra múslíma sé ekki eins stór í huga þeirra sem frammi fyrir honum krjúpa og Kristur er frammi fyrir þeim sem á hann trúa. Þannig sé það hugsanlega dulin minnimáttarkennd sem kyndir ofbeldisfullt andsvar þeirra við léttvægum myndbirtingum í dagblaði, myndbirtingum sem hefðu gleymst næsta dag eins og annað dægurglamm.

Viðbrögð múslíma á þessum dögum munu varla auka hróður spámannsins Múhameðs, en að sjálfsögðu er það heilög skylda þeirra að útbreiða visku hans og speki og laða fólk til fylgis við íslam. Ekki fær maður séð að mikill árangur í þá veru náist með þeim ofsa sem nú einkennir framgöngu þeirra.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.