Þrír vinir í tónum og textum

Þrjú atriði á tónlistarhátíð í gær glöddu öðrum fremur. Þannig gerist gjarnan þegar vinir fá viðurkenningu. Í gær fengu þrír af vinum mínum viðurkenningu. Þegar ég segi vini þá er ég að tala um lög, tóna, texta og flutning sem áður höfðu hrifið mig og sest að í hugarfylgsninu. Þessum stað sem svo flókið er að staðsetja.

Heiðursverðlaunin sem Guðmundur Jónsson óperusöngvari fékk, vöktu endurminningar frá því árið 1948. Þá sá ég hann fyrst. Það var á íþróttamóti Ungmannasambands Borgarfjarðar sem haldið var á Ferjukotsbökkum, sem frægir voru fyrir árviss hestamannamót. Þetta árið var ég ungur drengur í sveit á Svarfhóli í Stafholtstungum. Allt heimafólk sem vildi fékk að fara á mótið.

Farið var niður fyrir Flóðatanga og niður í Þræley, sem er á ármótum Norðurár og Hvítár. Þar var bátur og ferjumaður sem ferjaði fólk suður yfir Norðurá. Margt fólk var á þessum mótum og margar íþróttagreinar og skemmtiatriði. Þar sá ég Guðmund Jónsson óperusöngvara í fyrsta sinn og horfði og hlustaði hugfanginn á hann syngja, meðal annars Hrausta menn. Á sinn einstæða hátt. Síðan þá hefur hann átt aðdáun mína, sem og allrar þjóðarinnar, og ávallt vakið hlýjar tilfinningar. Ég söng Hrausta menn í marga daga eftir mótið við kúarekstur og fleiri störf.

Næsti vinur var Emilíana Torrini. Eignaðist geislaplötuna hennar, Fisherman’s Woman, strax þegar hún kom út. Með okkur, mér og tónlist Emilíönu, tókst einlæg vinátta þegar í stað. Mildin og harmrænan, bæði í tónum og textum hittu mig og yljuðu verulega. Það var ánægjulegt að sjá hana og heyra í sjónvarpinu í gærkvöldi. Hlý, lítillát og feimin tók hún við verðlaununum. Skrifaði ég pistil um hana fyrir ári: Sjá hér.

Í þriðja lagi nefni ég svo Hjálma. Kátir og hressir náðu þeir inn í þjóðarsálina með lögum sínum, tónum, textum og ágætum söng. Og dásamlegu útliti. Hittu þeir strax í mark með reggí laginu: „Ég vil fá mér kærustu sem allra, allra fyrst, / en ekki verður gott að finna hana / því hún skal hafa kinnar eins og hrútaber á kvist / og hvarmaljósin björt sem demantana / og hún skal vera fallegust af öllum innanlands / og iðin við að spinna og léttan stíga dans / og hún skal kunna að haga sér hið besta.“

Einn af vinunum þrem
Einn af vinunum þrem

Samgleðst ég þessu ágæta listafólki innilega og óska því til hamingju með verðlaun og viðurkenningu.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.