Brauðlaus heim

Eitt sinn gerðist það, ég hafði lagt bílnum mínum fyrir utan Mosfellsbakarí á Háaleitisbraut, að maður nokkur fylgdi mér inn í bakarí og benti mér á að það væri farin pera í stöðuljósi að aftan. Ég þakkaði manninum innilega fyrir. Eftir að hafa keypt ósneitt sólkjarnabrauð ók ég á verkstæði og fékk peru. Vil ekki vera hirðulaus um ljósin á bílnum. Hugsaði hlýlega til mannsins sem benti mér á.

Einhverjum vikum síðar kom ég aftur að Mosfellsbakaríi á Háaleitisbraut til að kaupa sólkjarnabrauð, ósneitt, og lagði bílnum við hliðina á þessum feikna mikla jeppa á 38 tommu felgum og með fjórar loftnetstangir upp úr þakinu og hulstur með einhverju apparati í. Sá ég að pera í stöðuljósi að aftan lýsti ekki, en jeppinn var í gangi, og ákvað að sýna eigandanum þá vinsemd að benda honum á þetta.

Ég hafði sé ökumann jeppans fara inn í bakaríið og sagði við hann, að ég held vingjarnlega: „Það er farin pera í afturljósi hjá þér ljúfur.“ Hann leit á mig snögglega, hvessti brýrnar og hreytti í mig með áherslu: „Hvurn andskotann kemur það þér við?“ Mér dauðbrá og hrökklaðist út. Og kom brauðlaus heim.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.