Er latína hlutlaus

Við fórum í messu í morgun, Taizé messu í Árbæjarkirkju og sungum með. Gunnbjörg leiddi sönginn ásamt kór og orgeli. Það er gott að syngja Taizé kóra. Adoramus te Domine, Kyrie eleison, Maranatha! Alleluja! Salvador mundi, Sanctus og lengi má telja. Presturinn hélt smá kynningartölu um Taizé fyrrbærið og vaxandi vinsældir og útbreiðslu þess. Í kirkjusöngbókinni eru versin bæði á latínu og íslensku. Um það sagði presturinn m.a:

„Latínan er hlutlaus…“ Þar sem ég sat í bekk aftarlega, velti ég því fyrir mér hvort latínan væri hlutlaus. Er hún það fyrir mismunandi trúarskoðunum, stjórnmálaskoðunum, menningarheimum eða litarháttum? Það getur vel verið að hún sé það. En hvar stendur hún gagnvart þeim sem ekki kunna latínu? Er hún hlutlaus fyrir þeim við hlið þeirra sem kunna hana? Lúter gamli var ekki á því að latínan væri hlutlaus. Hún veitti þeim vald sem kunnu hana yfir þeim sem kunnu hana ekki. Og hann mótmælti því og réðist í að þýða Biblíuna á tungumál þjóðar sinnar.

Ég veit ekki hvað margir kunnu latínu af þeim sem voru í kirkjunni í morgun. En neðri lína kóranna í söngbókinni var ævinlega á íslensku. „Ó, heyr mína bæn, ó, heyr mína bæn…er ég bið, svara mér… …Drottinn, kom þú til mín.“ Það er eins og sálin fái vængi þegar hún sameinast í þessum söngvum.

Þegar auðmjúkur samhljómur Taizésöngvanna hljómar og fólk tekur þátt, þá er líkast því að „blíður vindblær hvísli“ og lyfti undir vængina. Svo auðmjúkt, svo milt, svo blessað. „Hámark bænarinnar: söngur sem hefir engan endi og heldur áfram í þöglu hjarta þegar þátttakandinn er aftur orðinn einn,“ segir bróðir Roger.
Ánægður í messulok fékk ég að kyssa prestinn í þakklætisskyni.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.