Tími til að breyta

Það var svo sérlega elskulegt andrúmsloftið við Horngluggann í morgun. Fyrst þessi þægilega tilfinning að vakna endurnærður og finna hvergi til, tipla þvínæst fram í eldhús og hella á LavAzza, örlítið sterkara en hversdagslega. Ganga síðan að Hornglugganum og horfa út í nágrennið hvar engin hreyfing sást. Hlusta og á lágstillta samræðu í útvarpi um kortagerð Landmælinga Íslands.

Þegar kaffikannan upplýsti að kaffið væri tilbúið kom Ásta fram, hljóðlega að vanda. Við settumst í morgunstólana og ræddum þægilegan svefninn og allt var svo gott. Í Árbók bókmenntanna er eitt af orðum dagsins eftir Vilhelm Moberg. Þar segir: „Þegar stjórnmálamaður segir að við sitjum í sama báti, þá skaltu vara þig. Það táknar að þú átt að róa.“

Dagblöðin breyttu andrúmsloftinu nokkuð. Fréttir af stjórnmálum og fjármálabröskurum voru áberandi eins og venjulega. Hvort tveggja mál með neikvæðum anda. Það er lærdómsríkt að sjá stjórnmálamenn breytast þegar nálgast kosningar og þeir verða óvissir um vald sitt. Ósköp og skelfing hlýtur þeim að vera annt um valdið. Reyndar eru þeir ekki einir um það. Varð hugsað til þeirra í vikunni þegar ég horfði á langan þátt á Dk2 um apa í apabyggð og valdabrölt þeirra. Margt var líkt og með stjórnmálamönnunum.

Fas og framkoma þeirra breytist. Röddin verður mýkri. Þá byrja þeir og að muna eftir minnihlutahópum. Má engu muna að þeir brosi í sjónvarpinu. Og lækka nýhækkaðar álögur á barnafólk í skóla. Og segjast ætla að lagfæra nýja strætókerfið sem þeir vörðu með kjafti og klóm fyrirfram. Og segja fullum hálsi að ef þeir missi völdin þá verði verri tímar hjá Reykvíkingum. Hvaða Reykvíkingum?

Ef nýr meirihluti tekur við völdum, þá þýðir það að stærri hluti kjósenda hefur kosið hann. Og sá meirihluti samanstendur af Reykvíkingum sem vill færa valdið frá þeim sem nú hafa það og trúa því að tímarnir batni við breytinguna. Hvað sem háværar konur segja um málið. En það hefur sýnt sig að þegar sama fólk hefur verið of lengi við völd þá byrjar það að fara með stofnanir borgarinnar eins og einkafyrirtæki. Og það er miður. Þess vegna hlýtur að vera kominn tími til að breyta.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.